Eiríkur Rafn Rafnsson, aðstoðarmaður þingflokks Pírata, segir umræðuna um þriðja orkupakkann einkennast af hræðsluáróðri og lygum. Hann setur málið í samhengi við áróðursbrögðin sem viðhöfð voru í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar.
„Að magna upp hræðsluna við eitthvað óskilgreint, flókið og útlenskt er sama taktík og nasistar notuðu við að útrýma gyðingum, sósíalistum, hommum og fötluðum,“ skrifar Eiríkur á Pírataspjallinu, óformlegum umræðuvettvangi flokksins.
Þótt drjúgur þingmeirihluti virðist vera fyrir innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt er málið gríðarlega umdeilt. Þannig hafa heitar umræður farið fram um þriðja orkupakkann á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur. Í dag barst andstæðingum orkupakkans öflugur liðsauki þegar ASÍ lagðist gegn innleiðingunni með afdráttarlausum hætti og sagði „feigðarflan að staðfesta markaðsvæðinguna“ sem falist hefði í orkulagabálkum ESB.
Eiríkur kallar eftir því að „þjóðernispopúlistahræðsluáróðri Miðflokksins“ verði hafnað og rætt um orkupakkann á grundvelli staðreynda. „Hver sá sem segir þér að þriðji orkupakkinn snúist um valdaafsal Íslands til Evrópu, nauðungarsölu á Landsvirkjun, sjálfkrafa samþykki fyrir lagningu sæstrengs eða að það þurfi að virkja hvern einasta bæjarlæk samskvæmt skipunum frá ESB.... ER AÐ LJÚGA AÐ ÞÉR!“
Athugasemdir