Í tengslum við þriðja orkulagabálkinn sem nú er á dagskrá er meðal annars rætt um eignarrétt á auðlindum. Stundin fjallar um málið 21. apríl. Því til viðbótar er rétt að benda á vefinn orkanokkar.is þar sem lesa má samantektir lagaprófessorsins Peters Ørebech, sérfræðings í Evrópurétti, um lögfræðilega fimleika í eignarétti og skrifa undir áskorun til þingmanna í leiðinni.
Í þessu samhengi er rétt að huga sérstaklega að tveimur atriðum:
1. Það er til lítils að eiga auðlind ef frelsið til að selja eða nýta afurðina er takmarkað. Vald Evrópusambandsins er töluvert og sívaxandi í málum sem lúta að dreifingu og sölu raforku. Það eykst verulega með þriðja orkulagabálknum og mun án efa aukast með orkulagabálkum sem á eftir koma. Einlægur vilji Evrópusambandins til að stjórna orkumálum innan Evrópusambandsins og EES er ekki feimnismál, nema kannski á Íslandi.
2. Evrópusambandið vill að framleiðsla og sala orku verði á markaði. Þar þykir ekki henta að hafa markaðsráðandi ríkisfyrirtæki á borð við Landsvirkjun og finnst mörgum að þar sé alls ekkert pláss fyrir ríkisfyrirtæki. Embættismenn Evrópusambandsins virðast vera á þeirri skoðun, samanber nýlegar og ákveðnar kröfur sambandsins um einkavæðingu vatnsaflsvirkjana í Frakklandi og fleiri löndum sem lesa má um hér.
Varla verður séð að sá sem vill ekki einkavæða Landsvirkjun geti stutt það að Evrópusambandinu verði falið meira vald en það nú þegar hefur í orkumálum á Íslandi. Sá sem vill selja Landsvirkjun ætti að sjá sóma sinn í að afla því sjónarmiði fylgis á Alþingi og meðal kjósenda fremur en að lauma valdheimildum til útlanda í skjóli neytendaverndar í von um að í kjölfarið komi einkavæðingarkrafa að utan, líkt og menn fást við í París og fleiri borgum Evrópusambandsins um þessar mundir.
Hvar svo sem menn standa í þessu máli verður niðurstaðan sú að hafna þriðja orkulagabálknum.
Athugasemdir