Blaðamaður Stundarinnar leitaði að húskarlinum sem sagt er frá í myndbandi þess sem þetta ritar, og fann hann ekki. Það skal engan undra, því hann gengur undir ýmsum nöfnum. Í tilskipun Evrópusambandsins nr. 72/2009 er sagt frá húskarlinum og heitir hann þar „landsbundið eftirlitsvald“. Í hinni dönsku þýðingu sama skjals er talað um „nationale regulerende myndigheder“. Sá myndugleiki hefur jafnan verið nefndur „landsreglari” af þeim sem hafa ekki skilning á því að erlent ríkjasamband sem Ísland á enga aðild að eigi að fá valdheimildir í orkumálum Íslendinga.
Í fyrrnefndri tilskipun er vaðið á súðum um hlutverk landsreglarans. Hann á „að gefa út bindandi ákvarðanir að því er varðar raforkufyrirtæki og að beita raforkufyrirtæki, sem hlíta ekki skuldbindingum sínum, skilvirkum viðurlögum“ en umfram allt „þurfa eftirlitsaðilar á sviði orku að geta tekið ákvarðanir í tengslum við öll viðeigandi mál er varða lög og reglur, og að vera óháðir hvers konar öðrum einka- eða almannahagsmunum“. Landsreglarinn er semsagt ekki þjónn Íslendinga þótt þeir borgi honum launin, heldur þjónn hins evrópska reglukerfis. Þyki landsreglaranum landsmenn ekki nógu hlýðnir hefur hann skv. 37. kafla, lið 4d fyrrgreindrar tilskipunar heimild til að sekta fyrirtæki um allt að 10% af ársveltu. Það er drjúgur skildingur.
Húskarlar fyrr á árum voru sjaldnast vel til hafðir og ugglaust stundum svangir og örmagna af þrældómi. Sú mannsmynd mun ekki hjálpa neinum við að finna húskarla Evrópusambandins og ekki von að neinn fyndist af því tagi. Húskarlar Evrópusambandsins eru jafnan í sparifötunum, búa vel og í híbýlum þeirra skortir ekki smjörið. Að því leyti eru húskarlar fyrri tíma ólíkir þeim sem rætt er um í myndbandinu. Auðvitað þætti sumum það mikill munur, en þeir eiga sameiginlegt húskörlum fyrri tíma að hafa helst fyrir stafni að hlýða húsbændum sínum.
Margir þeirra þúsunda sem skrifa undir áskorunina á orkanokkar.is binda vonir við að blaðamenn Stundarinnar muni fylgja málinu eftir og leita raunverulegra svara við spurningum um það hvert sé stefnt í orkubandalagi Evrópu, hvers vegna Ísland eigi að vera þar, hverjir græði, hverjir tapi, hvort Evrópubúar hætti í alvöru að kaupa fisk ofan af Íslandi ef Íslendingar láta ekki undan, hvað ráði afstöðu þingmanna, hvers vegna sumir þingmenn sem segjast ekki vilja markaðsvæða orkuna og vilja alls ekki auka virkjanaþrýsting mæli ekki gegn orkubandalaginu og hverjir og hvaða hagsmunir ráða í bandalaginu, svo fátt eitt sé nefnt.
________________________
Athugasemd ritstjórnar: Þær valdheimildir sem vísað er til í tilskipun nr. 72/2009 verða hérlendis á hendi Orkustofnunar samkvæmt lagafrumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem lagt hefur verið fram vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um Orkustofnun, heyrir undir yfirstjórn ráðherra og fer með umsjónar- og eftirlitshlutverk í raforkumálum á grundvelli raforkulaga.
Athugasemdir