Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar átti frumkvæði að því árið 2014 að reglur úr þriðja orkupakkanum voru innleiddar í íslensk lög án þess að þær hefðu verið samþykktar í sameiginlegu EES-nefndinni og teknar upp í EES-samninginn.
Sumum þótti þetta óþarfa óðagot og eðlilegra að bíða með innleiðinguna en Sigmundur var á meðal þeirra sem greiddu atkvæði með frumvarpinu þann 28. maí 2015 – fyrsta lagafrumvarpinu sem samþykkt var vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Atkvæði Frosta Sigurjónssonar féll á sama veg en nú er hann einn helsti talsmaður samtaka sem beita sér gegn innleiðingu reglnanna.
Haft var eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í viðtali á Mbl.is fyrr í vikunni að „þriðja orkupakkanum hafi ekki verið hleypt í gegn í tíð hans ríkisstjórnar“. Benti hann á að pakkinn hefði „ekki verið tekinn upp í EES-samninginn í gegnum sameiginlegu EES-nefndina fyrr en í maí 2017 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar“. Með þessu skautaði hann fram hjá þeirri staðreynd að hans eigin ríkisstjórn kaus að lögfesta ákvæði úr þriðja orkupakkanum áður en tilskipunin var tekin fyrir á vettvangi EES-nefndarinnar.
Á meðal annarra sem studdu þingmálið eru tveir núverandi þingmenn Miðflokksins, Þorsteinn Sæmundsson og Gunnar Bragi Sveinsson.
Markmiðið að „stuðla að betri tengingu innri markaðarins“
Um er að ræða 22. gr. tilskipunar nr. 2009/72/EB um kerfisáætlun flutningsfyrirtækja.
„Markmiðið með því ákvæði tilskipunarinnar er að stuðla að betri tengingu innri markaðarins þannig að raforkuþörf hans verði betur mætt með ásættanlegu afhendingaröryggi,“ segir í greinargerð stjórnarfrumvarpsins sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðanaðarráðherra lagði fram árið 2014.
„Taka ber fram að tilskipun 2009/72/EB hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Engu að síður þykir rétt, eins og nánari grein er gerð fyrir í athugasemdum með frumvarpinu, að innleiða þegar hluta hennar, þ.e. 22. gr., með frumvarpi því sem hér er lagt fram.“
Hugað að flutningi
raforku til útlanda
Með frumvarpinu var kerfisáætlun Landsnets veitt aukið vægi gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga og Orkustofnun fengið eftirlitshlutverk með framkvæmd áætlunarinnar. Auk þess var lögfest að við gerð kerfisáætlunar um flutning rafmagns skyldi meðal annars byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun „raforkuflutnings til annarra landa“. Þetta og fleira var gagnrýnt af þingmönnum stjórnarandstöðunnar á þeim tíma.
„Minni hlutinn telur engan veginn tímabært að lögfesta ákvæði í þessa veru hér á landi og leggur til að tilvísun í raforkuflutning til annarra landa falli brott,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri grænna í minnihlutaáliti. Taldi hún „réttara að bíða með lögfestingu þessa frumvarps og samþykkt tillögu um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína þar til þriðja raforkutilskipun ESB hefur verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi, í stað þess að innleiða aðeins og án samhengis við önnur ákvæði efni 22. gr. tilskipunarinnar eins og hér er lagt til“.
Lilja Rafney lagði fram breytingartillögu þar sem lagt var til að vísan til „raforkuflutnings til annarra landa“ yrði felld brott. Athygli vekur að Sigmundur Davíð, Frosti Sigurjónsson, Gunnar Bragi og Þorsteinn Sæmundsson greiddu allir atkvæði gegn þeirri tillögu.
Segist aldrei hafa stuðlað að innleiðingu
Nýlega birti Sigmundur Davíð færslu á Facebook þar sem hann gagnrýndi málflutning utanríkisráðherra um að innleiðing þriðja orkupakkans sé óhjákvæmileg afleiðing af ákvörðunum sem teknar hafi verið af fyrri ríkisstjórnum og innan sameiginlegu EES-nefndarinnar.
„Orkupakkinn kom reyndar ekki inn í sameiginlegu EES-nefndina fyrr en 2017. Ákvörðun verður fyrst tekin núna og ég hef aldrei gert neitt til að stuðla að innleiðingu hans, þvert á móti,“ skrifaði Sigmundur, sem eins og áður segir leiddi þá ríkisstjórn sem stóð að fyrsta frumvarpinu vegna innleiðingar þriðja orkupakkans og greiddi sjálfur atkvæði með því.
Athugasemdir