Sex fyrirtæki tilkynntu Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í mars. Alls misstu 473 vinnuna í þeim uppsögnum, þar af 347 á Suðurnesjum. Töpuð störf vegna gjaldþrots WOW air eða annarra gjaldþrota eru ekki inni í þessum tölum.
Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar. Stærsta hópuppsögnin var hjá Airport Association, en stórum hluta þeirra sem sagt var upp hefur verið boðin endurráðning á öðrum kjörum. 13 var sagt upp störfum hjá öðru fyrirtæki í starfsemi tengdri flutningum og geymslu.
Hinar uppsagnirnar komar úr fjórum atvinnugreinum. 46 var sagt upp í ferðaþjónustu, 37 í framleiðslu, 32 í byggingastarfsemi og 30 í sérfræðilegri, vísindalegri og tæknilegri starfsemi. Hópuppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu maí til júlí 2019.
Í gær kom fram á Vísi að 33 starfsmönnum Actavis yrði sagt upp á næstu mánuðum. Fyrstu uppsagnirnar taka gildi um mánaðamótin en öðrum verður dreift yfir árið.
Engar tilkynningar bárust Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í febrúar.
Athugasemdir