Stjórn Íslenska flugmannafélagsins, stéttarfélags flugmanna hjá WOW air, hefur sent Blaðamannafélagi Íslands bréf þar sem óskað er eftir því að félagið framkvæmi „rannsókn á hlunnindum og sporslum til blaðamanna“, svo sem „frímiðahlunnindum“ frá helsta samkeppnisaðila WOW air.
Þannig er ýjað að því að blaðamenn sem fjalla um málefni WOW air hafi þegið gjafir frá Icelandair og fréttaflutningurinn litist af því. Slíkt fæli í sér brot gegn siðareglum blaðamanna.
„Í ljósi óvæginnar umfjöllunar íslenskra fréttamiðla um WOW air undanfarið óskar Íslenska flugmannafélagið ÍFF, stéttarfélag flugmanna WOW air, eftir rannsókn á hlunnindum og sporslum til blaðamanna s.s. frímiðahlunnindum frá helsta samkeppnisaðila WOW air,“ segir í bréfinu sem formanni Blaðamannafélagsins barst í dag. „Við óskum eftir að þetta verði kannað m.t.t. gagnsæis blaðamanna gagnvart lesendum sínum.“
Fram kemur að stéttarfélagið vilji einnig „láta kanna heimildaröflun íslenskra blaðamanna um málefni WOW air hverju sinni“. Fullyrðir flugmannafélagið að margir fjölmiðlar reiði sig „m.a. á upplýsingar frá bloggara, búsettum í Svíþjóð, sem er sjálfskipaður helsti sérfræðingur Íslands í flugmálum og oftar en ekki vitnað í órökstuddar hugleiðingar hans“. Er þarna væntanlega vísað til Kristjáns Sigurjónssonar sem heldur úti vefnum Turisti.is.
Athugasemdir