Þingmenn Miðflokksins gagnrýna birtingu á mati „svokallaðrar“ siðanefndar Alþingis vegna Klaustursmálsins. „Pólitískt eðli málsins er nú staðfest enn á ný og þurfti ekki frekari vitnanna við,“ segir í yfirlýsingu frá flokknum.
Álit ráðgefandi siðanefndar sem forsætisnefnd leitaði til í málinu var birt á vef Alþingis fyrir mistök í gær.
Skrifstofustjóri Alþingis fór þess á leit við RÚV að frétt um málið yrði fjarlægð, en ekki var orðið við því. Nú hefur álitið verið fjarlægt af vefnum.
Í álitinu kemur fram að samtalið sem sex þingmenn áttu á Klaustri bar í nóvember og var tekið upp hafi ekki talist einkasamtal. Ummæli og hegðun þingmannanna sex falli undir siðareglur Alþingis.
Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson voru kosnir sérstakir varaforsetar Alþingis þar sem forsætisnefnd lýsti sig í heild sinni vanhæfa í málinu. Óskuðu þau eftir álitinu. Í því kemur ekki fram afstaða til þess hvort siðareglur hafi verið brotnar, en þar segir að þingmenn séu opinberar persónur. „Þar sem hátternið varðar almenning verður ekki litið á þau atvik sem hér um ræðir sem einkasamtal.“
Róbert Haraldsson skilaði séráliti, þar sem hann segir efasemdir um að hátterni þingmannanna falli undir siðareglur Alþingis. Samræður þeirra á barnum hafi verið á köflum „sundurlaust raus“ en ekki nokkuð sem varðar almannahagsmuni.
Ríkisútvarpið upplýst um álitið
Í yfirlýsingu frá Miðflokknum er birting álitsins gagnrýnd, sér í lagi þar sem frestur til að skila andmælum hafi ekki verið runninn út. „Slíkt gengur gegn stjórnsýslulögum,“ segir í yfirlýsingunni. „Hins vegar lægju fyrir nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýndu að mat siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum. Bentu þingmennirnir á að ekki væri hægt að skilja tilkynninguna og tímasetningu tilkynningarinnar öðruvísi en að með því væri ætlunin að festa siðanefndina í farvegi sem hún hefði komið sér í, á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga.“
Segir í yfirlýsingunni að fallist hafi verið á kröfu þingmannanna, en RÚV hafi engu að síður birt frétt um málið. „Ljóst má vera að Ríkisútvarpið hafi verið upplýst um innihald bréfsins,“ segir í yfirlýsingunni. „Pólitískt eðli málsins er nú staðfest enn á ný og þurfti ekki frekari vitnanna við. Lög og grundvallarreglur sanngjarnrar málsmeðferðar hafa ítrekað verið brotnar við meðferð málsins.“
Athugasemdir