Hagaskóli frumsýndi sönleikinn Mary Poppins í gærkvöldi en í kvöld, þriðjudaginn 26. mars, er sérstök styrktarsýning fyrir Zainab Safari, nemanda í Hagaskóla og fjölskyldu hennar. Allur ágóði af sýningunni rennur til þeirra.
Zainab er 14 ára stelpa og hælisleitandi frá Afganistan sem kom til Íslands fyrir um sex mánuðum síðan með móður sinni og bróður. Fjölskyldu Zainab var synjað um efnislega meðferð hælisumsóknar sinnar á Íslandi og bíða þau brottvísunar.
Síðastliðinn föstudag gengu nemendur fylktu liði úr Hagaskóla að húsnæði Kærunefndar útlendingamála og dómsmálaráðuneytinu til að afhenda 6000 undirskriftir sem þeir söfnuðu fyrir skólasystur sína. Áður en lagt var af stað í kröfugöngu buðu nemendur foreldrum sínum og öðrum að koma í skólann, fá sér kaffi og kleinur og um leið að styrkja fjölskylduna með frjálsum framlögum. Þannig hófst fjáröflunin fyrir fjölskylduna.
Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, lagði sama dag fram endurupptökubeiðni vegna máls fjölskyldunnar hjá Kærunefnd útlendingamála. Krafan sem hann sendi inn var reist á þeim grundvelli að að aðstæður fjölskyldunnar hefðu breyst verulega frá því að ákvörðun um brottvísunina var tekin. Breytingin felist í því hversu sterk tengsl fjölskyldan hefur myndað á meðan þau hafa dvalið hér. Magnús segir það sérstaklega eiga við um Zainab, sem hefur myndað öflugt tengslanet í Hagaskóla og að undirskriftir skólafélaga hennar séu til marks um það.
Styrktarsýning á Mary Poppins
Í kvöld halda nemendurnir fjáröflun sinni áfram með sérstakri styrktarsýningu á Mary Poppins, söngleik Hagaskóla í ár, þar sem ágóðinn rennur allur til Zainab og fjölskyldu hennar.
„Þetta er ellefti söngleikurinn sem Hagaskóli setur upp,“ segir Sigríður Birna Valsdóttir, leikstjóri sýningarinnar. „Svona stórar sýningar eru fastur liður í starfi skólans. En hvað varðar þessa sýningu, þá var ákveðið á meðal nemenda skólans og þátttakenda sýningarinnar að ein af sýningunum yrði styrktarsýning.“
„Mér finnst mjög mikilvægt að rödd okkar barna heyrist og það er mikilvægt að við getum tjáð skoðanir okkar og hjálpað þeim sem eru með minni rödd.“
Það var á fundi þar sem Zainab sagði nemendum og kennurum Hagaskóla sögu sína sem hugmyndin kom upp ásamt fleiri tillögum um hvernig hjálpa mætti Zainab og fjölskyldu hennar.
„Ég er svo hrikalega stolt af nemendum okkar í því hvernig þau hafa staðið að þessum málum með Zainab og svo er ég auðvitað stolt af þeim fyrir sýninguna,“ segir Sigríður.
Aðgerðahópur nemenda
Svava Þóra Árnadóttir, nemandi í Hagaskóla, er þátttakandi í Mary Poppins og hluti af aðgerðahóp sem hefur það að markmiði að hjálpa Zainab og fjölskyldu hennar. Svava segir að það sé mikil samstaða í skólanum og allir vilji leggja sitt af mörkum.
Aðgerðahópurinn ætli hittast á morgun, daginn eftir sýningu og fara yfir stöðu mála. Í hópnum eru krakkar í nemendaráði, réttindaráði og nemendafulltrúar auk annarra sem vilja leggja málefninu lið. Aðgerðarhópurinn vinnur í nánu samstarfi við kennara og starfsmenn skólans sem eru þeim innan handar og til halds og trausts.
„Mér finnst mjög mikilvægt að rödd okkar barna heyrist og það er mikilvægt að við getum tjáð skoðanir okkar og hjálpað þeim sem eru með minni rödd. Við munum halda áfram að berjast fyrir Zainab og fjölskyldu hennar,“ segir Svava.
Hægt er að kaupa miða á leiksýninguna á vefsíðu Hagaskóla.
Athugasemdir