Það eru 25 milljón flóttamanna í heiminum, en það þurfti bara eitt táknrænt tjald og nokkra sýnilega hælisleitendur til þess að háir sem lágir samlandar okkar ákvæðu að rísa upp gegn þeim, í okkar nafni, og gera aðsúg að þeim.
Lögreglan okkar þurfti bara nokkur pappaspjöld til þess að ákveða að beita valdaminnsta og jaðarsettasta fólkið þvingunum, draga þau eins og sauðfé eftir Austurvelli í valdbeitingu sem yfirlögregluþjónn sagði að gæti ekki verið „krúttleg“. Í fyrsta skiptið frá árinu 2009 beitti lögreglan piparúða gegn mótmælendum.
„Þetta er til háborinnar skammar!“ sagði einn þingmaður og fyrrverandi útvarpsstjóri, úr flokki dómsmálaráðherrans sem setti heilt dómstig á hliðina, um pappakassa á styttu af Jóni Sigurðssyni með skilaboðum um að á Austurvelli væri hið besta fólk. „Vér mótmælum allir,“ sagði hins vegar Jón sjálfur um mótmæli.
Samflokksmaður þingmannsins og fyrrverandi dómsmálaráðherra varaði við smithættu og ýjaði að því með orðum sínum að ekki væri nóg að frysta þá til að útrýma hættunni. Hann sagði þetta „vekja spurningar um hvort gætt hafi verið allra nauðsynlegra hreinlætis- og öryggiskrafna“ og að „nauðsynlegt sé að huga að sjúkdómavörnum í því tilliti og gæta fyllsta hreinlætis.“
En ef aðkomufólkið skyldi nú hafa notað salerni þrátt fyrir allt? Annar núverandi þingmaður, nýgenginn í Miðflokkinn, kvartaði undan því að fólkið fengi að nota salerni í kirkju, vegna heilagleika kirkjunnar, sem stendur gegnt barnum Klaustri hvar nýbakaðir samflokksmenn hans skeggræddu nýlega við hann „klikkaðar kuntur“ og „helvítis tíkur“ í röðum þingkvenna sem hægt væri að „ríða“.
Á samfélagsmiðlum reis flóðbylgja gegn hælisleitendunum. „Grýta þetta pakk,“ sagði ein kona á samfélagsmiðlum. „Hvar er loftsteinn þegar hann má falla þarna?“ spurði önnur. „Burtu með þennan skríl,“ sagði annar.
Það þurfti bara eitt tjald og pappakassa.
Flóðbylgja fyrirlitningar
Eftir að hælisleitendurnir enduðu táknræn mótmæli sín, og yfirgáfu svæðið í ótta um öryggi sitt, hrósaði Íslenska þjóðfylkingin sigri í yfirlýsingu: „Við viljum einnig þakka Halldóri Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseta Alþingis, hans hlut í að opna augu sumra fjölmiðla sem nú blöskrar ástandið. Það er Íslensku þjóðfylkingunni að þakka að búið er að rýma Austurvöll og okkar stærsta sjálfstæðistákn fær notið sín að nýju.“
Þeir höfðu nefnilega fengið stuðning úr fjölmiðlum. „Ég veit heldur ekki betur, en nokkuð auðvelt sé að fá hér atvinnuleyfi. Auðvelt að fá hér vinnu og setjast hér að,“ sagði ritstjóri með vafasama viðskiptafortíð í hneykslunarpistli yfir hælisleitendunum, sem fimm þúsund létu sér líka við á Facebook. „Svar mitt er nei,“ ítrekaði hann fyrir okkar hönd og uppskar fjölda upphrópana um að senda ætti fólkið úr landi.
Vikuna áður hafði starfsmönnum á leikskólanum Vinagarði í Reykjavík fækkað um einn, þegar kona sem starfaði þar var flutt nauðug úr landi. Hún var nefnilega sýrlenskur flóttamaður sem átti frekar að vera í Grikklandi, að mati yfirvalda, sem höfnuðu því að taka umsókn hennar til efnislegrar meðferðar. Einmitt vinnulag sem hælisleitendurnir á Austurvelli mótmæltu meðal annars með táknrænni viðveru á Austurvelli, helsta vettvangi íslenskrar mótmælasögu.
„Sjáist þeir meir á Austurvelli, verð ég fyrsti maður til aðgerða,“ sagði dæmdur morðingi á stjórnmálaspjallinu á Facebook, sem stýrt er af konu sem boðaði að hún myndi flýja land sitt ef Hatari ynni forkeppni Eurovision með gagnrýni sína á það athæfi Ísraelsríkis sem Sameinuðu þjóðirnar nefna glæpi gegn mannkyninu.
„Það sem er að gerast á Austurvelli er skipulögð yfirtaka íslams á Íslandi,“ sagði annar. „Íslenska þjóðin er þræl vopnuð annað til þriðja hvert heimili á skotvopn!“ sagði þriðji og kallaði þessa örfáu hælisleitendur „innrásarlið“ í því samhengi. Kona í Íslensku þjóðfylkingunni harmaði að komast ekki á Austurvöll með prik fyrir hælisleitendurna – því hún væri sjálf komin til Spánar. „Ég skelf af reiði,“ sagði hún. „Það á náttúrlega að skjóta þetta jafnóðum og það kemur á íslenska grund. Ógeðslegir krakkar, skítugar tíkur og illa innrættir karlar, skjóta þetta allt jafnóðum,“ sagði vinur hennar um fólkið á Austurvelli, sem hann talaði um í framtíð sem „þetta dauða drasl“.
Fyrrverandi dómsmálaráðherra sagði síðan hælisleitendurna ljúga því að þeir hefðu farið af Austurvelli af ótta við öryggi sitt.
Skilgreiningin á ofbeldi
Þetta var í vikunni sem við glötuðum sameiginlega stórum hluta af virðingu okkar, sakleysi og manngæsku.
Á laugardagskvöldinu sátu margar fjölskyldur heima hjá sér og fylgdust með útvarpsstýru útskýra í skemmtiþætti á RÚV hvers vegna 50 saklausir borgarar voru skotnir til bana í Nýja-Sjálandi. Hún ákvað að benda sérstaklega á að fólk af sömu trú og hinir myrtu, hefði jú líka myrt og því væri um að ræða svar. „Við erum búin að vera að horfast í augun við hryðjuverk frá ISIS-liðum núna árum saman og þetta kallar á einhver viðbrögð alltaf á móti.“
Þáttarstjórnandinn, Gísli Marteinn Baldursson, spurði hana hvað henni þætti um fögnuð tiltekinna Íslendinga í athugasemdakerfi Vísis, þeirra sem sögðu fjöldamorðið „Vel gert!“
„Öll svona umræða tengist auðvitað bara skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi,“ sagði hún. „Og menn láta sér það misjafnlega vel líka í hvora áttina það er. Allt ofbeldi virkar í báðar áttir.“
Það var daginn eftir sem Halldór Blöndal, fyrrverandi forseti Alþingis og ráðherra, stormaði á Austurvöll og sakaði hælisleitendurna um „ofbeldi“. Hann uppskar fjögur þúsund læk og fjölda áskorana um að kasta þeim úr landi. „Þetta er ofbeldi, að vaða upp á þann mann sem Íslendingum þykir vænst um, sem er stærsta nafn okkar í sjálfstæðisbaráttunni. Að klifra upp á hann og hengja upp á hann drasl. Þetta er ofbeldi við okkar tilfinningar,“ sagði hann í fjölmiðum.
Ofbeldið var pappakassinn á Jóni.
Hún fann hatrið
Útvarpsstýran hélt áfram að tala í sjónvarpinu. Hún kvartaði undan hatri, á Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem kallar hælisleitendur „innrás“ og reyndi að „loka landinu fyrir múslimum“ af tilteknu þjóðerni, sem hafði aldrei staðið að mannskæðu hryðjuverki í Bandaríkjunum: „Trump á eftir að ná gríðarlegum árangri, sem hann hefur nú þegar náð. Það er hins vegar skömm að því hvernig menn hafa sameinast í hatri gagnvart honum.“
Henni þótti gengið of langt, vegna þess að sumir mótmæltu því að Íslendingar tækju þátt í Eurovision vegna ofbeldis Ísraels gegn Palestínumönnum. „Hvað var það? Hvað var það? Það eru einhverjar skoðanir, af því að menn voru bara ekki sammála einhverju þar, þá vildu þeir ekki að keppnin, það ætti ekki að fara þangað einu sinni.“
Hún skildi ekki á milli fordóma eða ofbeldis, og svo tjáningar og skoðana. Henni hugkvæmdist ekki að grundvallarafstaðan sem taka ætti, væri einfaldlega gegn ofbeldinu sem byggir á fordómunum, þess í stað vildi hún ræða fjöldamorðin á grundvelli heimssýnar fjöldamorðingjans, út frá okkur og hinum.
Aðkomufólkið sem bjargaði okkur
Fyrir nokkrum árum stóðu Íslendingar frammi fyrir alvarlegri kreppu og gerðu kröfu um hjálp og skilning frá öðrum þjóðum. Það sem bjargaði okkur út úr þessari kreppu var einfaldlega aðkomufólk. Fljótlega var þó farið að kvarta undan því að ferðamennirnir, sem við veittum takmarkaðan aðgang að salerni, gerðu sumir þarfir sínar á víðavangi. Veitingafólk með mikinn hagnað af ferðamannabylgjunni kvartaði undan kostnaðinum við klósettpappírinn. Íslenska ríkið, sem fékk skatttekjurnar, gerði litlar tilraunir til að bæta við almenningssalernum. Það var farið að taka myndir af ferðamönnunum og útmála þá í fjölmiðlum, líkt og þeir væru að leika sér að þessu.
Hér var of fátt fólk til að vinna nauðsynleg störf í ferðamennsku. Og of fáir Íslendingar vildu vinna þá vinnu. Okkur var aftur bjargað af aðkomufólki.
Við höfum undanfarið heyrt af hættulegum hælisleitendum. Og svo að efnahagslífinu sé ógnað af lágtekjufólkinu, sama fólki og hefur starfað á lélegum launum við atvinnuveginn sem bjargaði okkur úr kreppunni okkar.
Fremstir í flokki þeirra sem vörðu virðingu þjóðarinnar, með því að úthrópa hælisleitendurna á Austurvelli, úr áhrifastöðum sínum, voru mennirnir sem fengu 44 prósent launahækkun á kjördag 2016. Á okkar kostnað. Fordæmandi illa statt aðkomufólk í okkar nafni. Þeir stukku fram fyrir röðina og sögðu svo að ekki væri lengur til neitt.
„Langar mig til að borga fólkinu þau laun sem kröfugerð verkalýðsfélaganna hljóðar upp á? Já, ég væri rosalega til í það. Svigrúmið er bara ekki svona,“ sagði framkvæmdastjóri hótelkeðju nýlega í útvarpinu. Hann gat þess ekki að hagnaðurinn væri tæpir tveir milljarðar króna á síðustu þremur árum.
Eigendur margra ferðaþjónustufyrirtækjanna sem kvarta undan launahækkunum hafa dælt peningum út úr félögunum á meðan vel hefur gengið. En svo er kveikt á viðvörunarbjöllunum þegar starfsfólkið vill fá meira greitt.
Austurvöllur tómur
Grasið á Austurvelli vex aftur þegar vorar, eins og eftir öll önnur mótmæli. Í sumar munu ágætlega stæðir tjaldbúar skilja töluvert verr við Herjólfsdal og fleiri tjaldstæði. Styttan af Jóni stendur eftir pappakassalaus. Við sitjum eftir með suma samlanda okkar sem í okkar nafni koma fram við nauðstadda gesti og jaðarsett fólk eins og skepnur.
Jafnvel þótt við ákveðum að vísa nauðstöddu og örvæntingarfullu fólki í burtu, og kannski ekki síður vegna þess, ættum við að geta sýnt manngæsku og haldið virðingu okkar.
Austurvöllur er núna tómur. Það sama má kannski segja um hjörtu okkar sumra. Ekki þó allra. Í Hagaskóla í Reykjavík héldu krakkarnir áfram að safna undirskriftum til að reyna að koma í veg fyrir brottvísun samnemanda þeirra, fjórtán ára stelpu frá Afganistan, hverrar móðir var ein hælisleitendanna á Austurvelli. Hún er nefnilega ein af þeim.
Athugasemdir