Sigríður Á. Andersen hefur ákveðið að segja af sér embætti dómsmálaráðherra.
Þetta tilkynnti ráðherra á blaðamannafundi rétt í þessu. Hún segist ætla að„stíga til hliðar“ meðan unnið verðiúr þeirri stöðu sem komin er upp vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vildi ekki svara því eftir fundinn hvort Sigríður ætti afturkvæmt í ríkisstjórn en sagði að boðað yrði til ríkisráðsfundar.
Sigríður sagði að viðhorf gagnvart persónu hennar „kunni að trufla þær ákvarðanir sem þarf að taka“ vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu.
„Í því ljósi hef ég ákveðið að stíga til hliðar til þess að skapa vinnufrið næstu vikurnar, þar sem einhverjum spurningum og álitaefnum verði svarað og leggja það til að þessum dómi verði skotið til yfirréttarins. Það verði þá í höndum annarra að vera í fyrirsvari fyrir dómsmálaráðuneytið á meðan því máli vindur áfram.“
Sigríður talaði líkt og hún yrði aftur ráðherra. „Ég mun stíga til hliðar á meðan að komið er til botns í þessu máli og hvernig þessu máli lyktar.“
Þetta er hins vegar ekki hennar að ákveða og samkvæmt heimildum Stundarinnar er lítill áhugi á því meðal samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins að Sigríður taki aftur við ráðherraembætti.
Gagnrýndi framsal dómsvalds
Á fundinum gagnrýndi hún Mannréttindadómstól Evrópu harðlega og boðaði að dóminum yrði áfrýjað til yfirdeildar dómstólsins.
„Ég mun ekki láta það átölulaust að dómstólar séu notaðir í pólitískum tilgangi,“ sagði hún. „Ég mun heldur ekkiláta það átölulaust að íslenskir dómstólar framselji vald til túlkunar á íslenskum lögum til erlendra dómstóla.“
Sigríður sagðist ekki hafa tilkynnt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um ákvörðun sína fyrir fundinn. „Hún les bara um þetta í blöðunum.“
Hins vegar hefði hún rætt við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. „Já, ég er auðvitað í samráði við hann.“
Sigríður kvaðst nú ætla til fundar við ríkisstjórnina. Þrátt fyrir allt kveðst hún njóta stuðnings annarra en fárra sem létu persónu hennar trufla sig. „Ég lít nú svo á að ég njóti stuðnings ríkkisstjórnarinnar. Ég nýt fulls stuðnings í mínum þingflokki.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist styðja ákvörðun ráðherrans. „Ég átti samtal við ráðherrann í gær og auðvitað lýsti ég áhyggjum af stöðunni og ég styð þá niðurstöðu sem hún hefur komist að,“ sagði hún í viðtali á Alþingi eftir að dómsmálaráðherra kynnti ákvörðun sína. „Ég styð þessa ákvörðun ráðherrans.“
Athugasemdir