Norski laxeldisrisinn Salmar ASA, stærsti hluthafi Arnarlax, hefur hafið tilraunir til að kaupa upp allt hlutafé annarra hluthafa Arnarlax. Sökum þess að Salmar á orðið meirihluta hlutafjár í félaginu eftir nýleg uppkaup á samtals rúmlega 12 prósent hlutafjár af félögunum Fiskisundi og Tryggingamiðstöðinni er Salmar skylt að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð í hlutabréf þeirra í félaginu. Um þetta er fjallað í tilkynningu frá Salmar AS til norsku kauphallarinnar sem birt var í morgun.
Í tilkynningunni segir: „Vísað er til kauphallartilkynninga frá 14. og 19. febrúar árið 2019 í kjölfar kaupa Salmar ASA á hlutabréfum í Arnarlaxi AS. Afleiðing af þeim uppkaupum er sú að Salmar er skuldbundið, samkvæmt hluthafasamkomulagi Arnarlax AS, að gera öðrum eftirstandandi hluthöfum tilboð í hluti þeirra í Arnarlaxi AS.“ Sá tími sem tilboðið gildir er frá því í dag, 13. mars og til 10. apríl. Tilboðið hljóðar upp á 55.783 norskar krónur á hlut.“
Þekktur norskur auðmaður Noregs meðal hluthafa
Ekki liggur fyrir hvaða hluthafar Arnarlax munu nýta tækifærið og selja hlutabréf sín í íslenska laxeldisfyrirtækinu. Meðal hluthafanna eru þó nokkur norsk fjárfestingarfélög, meðal annars eitt fyrirtæki sem er í eigu hóteleigandans og fjölmiðlafígúrunnar Petter Stordalens sem mikið er fjallað um í fjölmiðlum í Skandinavíu. Stordalen á nærri 3 prósenta hlut í Arnarlaxi í gengum félagið Strawberry Equities AS.
Einn hluthafi sem þó hefur sagt að hann ætli ekki að selja hlut sinn er Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax. Í tilkynningunni sem send var í síðasta mánuði um kaup Salmar á hlutabréfum Fiskisunds og Tryggingarmiðstöðvarinnar var það sérstaklega tekið fram að Kjartan ætlaði ekki að selja bréf sín í fyrirtækinu. Við Stundina sagði Kjartan: „Ég vil vera með áfram,“ en Kjartan á rúmlega 2 prósenta hlut í Arnarlaxi.
Athugasemdir