Halldór Benjamín Þorbergsson, núverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, fékk tæplega 25 milljóna króna lán frá eignarhaldsfélaginu Milestone afskrifað að mestu eftir að hann lét af störfum hjá fyrirtækinu. Lánið var notað til að kaupa hlutabréf í dótturfélagi bankans, Askar Capital. Halldór Benjamín segir í svörum sínum til Stundarinnar að engar persónulegar ábyrgðir hafi verið fyrir umræddu láni.
Árin fyrir efnahagshrunið 2008 vann Halldór Benjamín við fjárfestingar hjá Milestone og Askar Capital og kom meðal annars að viðskiptum í Evrópu og Bandaríkjunum gegnum dótturfélög í Milestone-samstæðunni.
Lánið var tekið af eignarhaldsfélagi í eigu Halldórs Benjamíns sem hét Hrímbakur ehf. árið 2007, en þetta félag var svo aftur í 100 prósent eigu Eignarhaldsfélagsins Hrímbaks ehf. sem var í 100 prósent eigu hans sjálfs. Halldór Benjamín var einn af nokkrum starfsmönnum Askar Capital, sem var í eigu Milestone, sem fékk lán til að kaupa hlutabréf í bankanum.
„Þar af leiðandi er eina eign félagsins, hlutabréf í Askar Capital, verðlaus og hefur verið færð niður að fullu.“
Upplýsingar um lánið koma fyrir í ársreikningum þessara félaga og í vinnugögnum frá Askar Capital og Milestone sem Stundin hefur undir höndum en í skýrslu stjórnar í ársreikningi Hrímbaks ehf., sem varð gjaldþrota árið 2012, segir Halldór Benjamín: „Í maí árið 2009 tilkynnti Askar Capital að fyrirtækið hefði lokið við fjárhagslega endurskipulagningu sína sem leiddi til þess að hlutafé félagsins var fært niður að fullu. Þar af leiðandi er eina eign félagsins, hlutabréf í Askar Capital, verðlaus og hefur verið færð niður að fullu. Stjórn Hrímbaks ehf. hefur átt í viðræðum við lánardrottna sína en framtíð félagsins er mjög óljós og þessum viðræðum er ekki lokið.“
Athugasemdir