Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, er að eigin mati hafin yfir pólitík í störfum sínum í borgarstjórn. Þetta sagði hún í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í morgun.
Ummælin komu fram í kjölfar þess að hún var spurð af hverju Ari Karlsson, sem skrifaði álit um Braggamálið, ætti að hylma yfir lögbrot með meirihluta borgarstjórnar í málinu þegar hann hafi verið skipaður í yfirkjörstjórn af Sjálfstæðisflokknum.
Í viðtalinu við Morgunútvarpið var farið yfir stöðu Vigdísar í borgarstjórn, en Magnús Már Guðmundsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur sagt Vigdísi og aðra borgarfulltrúa minnihlutans lama borgarkerfið með framgöngu sinni gagnvart starfsmönnum ráðhússins. Ástandið sé þannig að starfsfólk ráðhússins geti ekki unnið vinnuna sína.
Sigmar Guðmundsson spurði Vigdísi af hverju Ari Karlsson ætti að hylma yfir lögbrot með meirihlutanum. „Ég er hafin yfir pólitík í störfum mínum að þessu leyti hverjir eru á bakvið minnisblöð og skýrslur,“ svaraði Vigdís. „Ég er fyrst og fremst að sinna eftirlitskyldu minni.“
„Ég er hafin yfir pólitík í störfum mínum að þessu leyti.“
Sagðist Vigdís aldrei hafa farið yfir þær línur að gagnrýna starfsmenn óhóflega. Sagði hún hins vegar Dag B. Eggertsson borgarstjóra nota starfsfólk ráðhússins sem mannlegan skjöld í erfiðum málum. Þá sagði Vigdís að kosningasvindl hafi átt sér stað fyrir síðustu kosningar og að fjórir óbreyttir starfsmenn borgarinnar hafi komið að því, eftir að Sigmar spurði hana um málið. „Það er engu líkara en að þetta hafi verið skipulagt með þessum hætti sem þú ert að segja,“ sagði hún.
Athugasemdir