Eflingu stéttarfélagi var nýlega tilkynnt um að á einu af stóru hótelunum í Reykjavík héngi uppi á töflu sérstakur skammarlisti yfir þá starfsmenn sem taka sér flesta veikindadaga.
„Þetta er alvarlegt brot gegn persónuvernd og friðhelgi einkalífs starfsfólksins,“ segir Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ. „Við þessu gætu legið sektir. Við munum tilkynna Persónuvernd um þetta mál.“ Þetta er haft eftir Halldóri í tilkynningu frá Eflingu, en um er að ræða Grand Hótel.
Fram kemur að trúnaðarmenn starfsfólks hjá stórum hótelkeðjum hafi upplýst Eflingu um að yfirmenn skrái nöfn þeirra sem leiti til stéttarfélagsins.
„Fólki eru gefin bein og óbein skilaboð að afleiðingar fylgi því að tengjast stéttarfélaginu,“ segir Maxim Baru, yfirmaður félagssviðs Eflingar. „Fólki er bókstaflega sagt að fara ekki til stéttarfélagsins. Mannauðsdeildir margra þessara fyrirtækja hafa þá afstöðu að þau eigi starfsfólkið – og að trúnaðarmennirnir eigi að þjóna mannauðsdeildinni, frekar en að vinna með starfsfólki og stéttarfélagi.“
Verkalýðshreyfingin undirbýr nú verkfallsaðgerðir sem beinast gegn hótelum og rútufyrirtækjum. Um er að ræða 25 hótel og tvö til þrjú rútufyrirtæki. Rekstraraðilar í hótelgeiranum hafa lýst þungum áhyggjum af áformunum.
Athugasemdir