Ríkisskattstjóri mun taka 41 umsókn til meðferðar á ný þar sem fólki var synjað um heimild til að nota séreignasparnað til að greiða inn á höfuðstól láns síns skattfrjálst. Yfirskattanefnd úrskurðaði í síðustu viku kæranda í hag sem hafði verið synjað um heimild til að færa sig á milli húsnæðisúrræða eftir kaup á fyrstu íbúð.
Ríkisskattstjóri hafnaði 41 umsókn þeirra sem skipt höfðu um húsnæði frá því þeir keyptu sína fyrstu eign og vildu færa sig á milli húsnæðisúrræða haustið 2017. Brynhildur Bolladóttir lögfræðingur var ein þeirra sem fékk synjun og kærði hún niðurstöðuna. Yfirskattanefnd féllst í síðustu viku á umkvörtun hennar.
„Hjá ríkisskattstjóra er nú unnið að því að eigin frumkvæði að yfirfara allar umsóknir sem hefur verið synjað á sömu forsendum og uppi voru í þeim úrskurði sem vísað er til,“ segir í svari embættisins við fyrirspurn Stundarinnar. „Um er að ræða 41 umsókn og er nú þegar byrjað að endurupptaka þær. Viðkomandi fær tilkynningu inn á þjónustusíðu sína á skattur.is þegar búið er að yfirfara hans mál.“
Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að þeir umsækjendur sem eru í sömu stöðu og Brynhildur þurfi ekki að hafa samband við embættið af fyrra bragði. „Rétt er að geta þess einnig varðandi önnur séreignarsparnaðarmál að ríkisskattstjóri tekur almennt upp mál af eigin frumkvæði ef yfirskattanefnd kemst að annarri niðurstöðu en miðað var við í upphafi,“ segir í svarinu.
Athugasemdir