Ríkisstjórnin ákvað í vikunni að veita öllum Íslendingum skattalækkun, undir þeim formerkjum að þannig væri sérstaklega verið að hjálpa tekjulágum. Hún kynnti áformin með fyrirsögninni: „Skattbyrði minnkuð á lágtekjufólk“.
Þannig fær hver launþegi kaupmáttaraukningu upp á annaðhvort ríflega 6760 krónur á mánuði eða 13 þúsund krónur, eftir því hver túlkunin er, hvort sem viðkomandi er forstjóri eða í afgreiðslustarfi.
Túlkunin var mismunandi. Formaður Samfylkingarinnar sagði áhrifin vera „tvær stórar pizzur, einn skammtur af brauðstöngum og annar af kjúklingavængjum, á nettilboði 2 hjá Dominos“.
Ríkisstjórnin gaf hins vegar til kynna að heildaráhrifin fyrir tveggja barna foreldra með lágar tekjur væru um 14 megavikupitsur á mánuði.
Munurinn var sá að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra blandaði saman nýjum og gömlum ákvörðunum í kynningu á aðgerðunum. Þar inni var hækkun barnabóta sem kynnt var á öðrum glærufundi í september í fyrra í sama excel-útliti.
Forsvarsmenn verkalýðsforystunnar brugðust við með því að lýsa yfir „reiði“ og einn þeirra gekk út af fundi.
Við erum því komin á þann stað að reiðin á sér stað í opinberri umræðu, og hatrið sigrar í Eurovision.
Áform forsætisráðherra
Í einföldun eru tvær meginspurningar um rekstur ríkisins, okkar sameiginlega tækis til að hafa áhrif á veröld okkar: Annars vegar hvernig við verjum peningunum og hins vegar hvernig við öflum þeirra.
Síðari spurningin snýst síðan annars vegar um hagkvæmni og hins vegar um hversu mikil áhrif til jafnaðar við viljum að skattheimta hafi, hvernig skattbyrðin dreifist.
Katrín Jakobsdóttir, sem nú er forsætisráðherra, hafði skýrt svar við stóru skattaspurningunni þegar hún var spurð fyrir alþingiskosningar í þættinum Forystusætinu á RÚV. „Við teljum að það séu auknir möguleikar að sækja auknar tekjur til þeirra tekjuhæstu og eignamestu,“ sagði hún. „Við höfum auðvitað gagnrýnt það að á undanförnum árum hafa síðustu tvær ríkisstjórnir afsalað í raun og veru almenningi alltof miklum tekjum. Það var ráðist alltof skart í lækkun veiðigjalda, auðlegðarskatturinn var látinn renna út og þessar skattbreytingar, sem ég gæti auðvitað talið miklu fleiri, hafa fyrst og fremst þjónað hinum efnamestu í samfélaginu.“
Hún sagðist vilja leggja hátekjuskatt á „til dæmis á 25 milljónir í árstekjur“, eða rúmar tvær milljónir króna á mánuði, og auðlegðarskatt á „mjög miklar eignir“.
Sáttin um að takmarka skatta ríkra
Katrín setti hins vegar þann fyrirvara við að flokkur hennar gæti ekki gert þetta einn, þar sem Vinstri græn myndu varla ná hreinum meirihluta á Alþingi. Hún kvaðst því vilja ná breiðri sátt um breytingarnar. Eftir kosningar valdi hún síðan að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með flokki sem hefur andstæða stefnu í skattamálum og hefur á undanförnum árum fært skattbyrði af þeim tekjuhærri yfir á tekjulægri, út frá því að það sé réttlátara og hagkvæmara. Niðurstaðan var því ekki sátt, enginn hátekjuskattur var lagður á og áður en yfir lauk höfðu Vinstri græn sjálf kynnt áform um frekari lækkun veiðigjalda.
„Það er ekki verið að auka skattbyrðina neins staðar. Þetta finnst mér afskaplega mikilvægt,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar niðurstaðan var ljós og hann tilkynnti skattkerfisbreytingar, með skattalækkun jafnt fyrir fólk með meira en tvær milljónir í mánaðarlaun og lágtekjufólk.
Reiðir, ríkir menn
Það er ekki algengt að fólk færi fram reiði inn í opinbera umræðu. Tónninn hafði hins vegar verið gefinn nokkru áður með skorti á auðmýkt og firringu á ábyrgð.
Við sáum reiðina eftir að kjararáð, skipað að meirihluta af Alþingi og fjármálaráðherra, hækkaði laun þingmanna og ráðherra um 44 prósent í einni hendingu á kjördag haustið 2016. Reiðin spratt ekki bara fram meðal almennings, heldur líka í kjölfarið á Alþingi, hjá þeim sem báru mesta endanlega ábyrgð á ákvörðuninni. „Mér finnst alveg gersamlega óþolandi að þurfa að taka umræðu um það hver kjör þingmanna eigi að vera eða ráðherra,“ sagði Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra en nú fjármálaráðherra, sem skipaði einmitt formann kjararáðs, meðlim úr miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann talaði áður um „geðveiki“ þeirra sem sjá ekki hvað við hefðum það gott, að kunna okkur ekki hóf og tilhneigingu okkar til að vilja „miklu, miklu meira“.
„Ég held að það séu allar líkur á því að ég komi þessum manni í fangelsi“
Við sáum líka reiðina hjá einum ríkasta manni landsins, útgerðarmanninum Þorsteini Má Baldvinssyni, sem krafðist þess að seðlabankastjóri landsins yrði rekinn fyrir að kæra hann. Stundin segir nú í fyrsta sinn frá hluta af aðdraganda rannsókna á Samherja, pælingum um að nýta aflandsfélag til þess að lækka skattgreiðslur og borga sjómönnum lægri laun fyrir Afríkuveiðar, með því að selja afla útgerðarinnar til eigin félags á Kýpur og stýra verðlagningunni og þar með hlut sjómanna. Sjómennirnir áttu síðan eftir að lenda í vandræðum gagnvart skattinum á Íslandi vegna þess hvernig þeir fengu greidd laun frá Samherja út af vinnu sinni hjá Afríkuútgerðinni.
Þorsteinn Már, sem meðal annars var stjórnarformaður Glitnis í hruninu og stillti sér og bankanum upp sem fórnarlömbum, er enn reiður og vill refsa opinberum starfsmanni. „Ég stend enn þá við mín orð, það á að reka þennan mann úr bankanum og ég held að það séu allar líkur á því að ég komi þessum manni í fangelsi,“ sagði hann fyrir nokkrum vikum.
Reynsla sem rót reiði
Við höfum reynslu af því, yfirstandandi og áframhaldandi, að þeir sem bera mestu ábyrgðina axla hana lítið. Við vitum af reynslu hverjir eru í aðstöðu til að redda sér og hverjir þurfa raunverulega að bera ábyrgðina. Við höfum séð bankastjóra og aðra bissnessmenn skjóta peningum inn í myrkur aflandssvæða áður en þeir fara í þrot, og peninga birtast skyndilega aftur skráðir á nánustu fjölskyldu. Við sjáum bankastjóra Landsbankans hækka í launum um 140 digur prósent á fjórum árum, á sama tíma og talsmenn láglaunafólks eru vændir um sturlun fyrir mun hóflegri kröfur.
Við höfum nú þá almennu reynslu að forstjórar og æðstu stjórnendur hafa hækkað í launum að jafnaði sem nemur einni lágtekjumanneskju á nokkrum árum. Þeir hafa að meðaltali fengið hækkanir sem eru fimm sinnum meiri peningur en lágtekjufólk fær og þrisvar sinnum meira en millitekjufólk.
Í afstæðum aðstæðum í lífi fólks er króna ekki bara króna, og pitsa er ekki pitsa. Í fyrsta lagi er oftast talað um kjarabætur í prósentum. Bankastjóri Landsbankans fær 550 þúsund krónur í hækkun þegar laun hennar hækka um 17 prósent, ofan á 3,25 milljónir króna sem fyrir voru. Þessi viðbót í þessum aðstæðum rennur í aukna lúxusneyslu eða sparnað, en ekki í grunnþarfir. Fólk getur bara borðað visst margar pitsur.
Manneskja á 300 þúsund króna launum fær hins vegar ekki einn tíunda af þessari hækkun, og viðkomandi nýtir þá hækkun til að bregðast við afstæðri fátækt og raunverulegum skorti sem tengist grunnþörfum eins og húsnæði, fæðu og möguleikanum á sumarfríi utan heimilisins. Því fylgir síður tilfinning að sætta sig við hundrað þúsund krónur til eða frá ofan á þrjár milljónir króna, heldur en að eiga herbergi fyrir börnin eða geta leyft þeim það sama og önnur börn fá.
„Ég get aldrei farið með krakkana á leikskólann og ég get aldrei sótt þau“
„Ég get aldrei farið með krakkana á leikskólann og ég get aldrei sótt þau,“ segir móðir í láglaunastarfi í samtali við Stundina, sem þarf að vinna mikla yfirvinnu til að komast af. „Við gætum aldrei lifað af ef ég væri bara á dagvinnulaununum mínum.“
Leiðin út úr skorti eftir að laun ófaglærðra tóku að dragast aftur úr er ekki heldur auðveld. Hún reynir að klára stúdentspróf en það er illgerlegt þegar vinnutíminn er svona langur.
Þau okkar sem upplifa skort lifa við tilfinningar tengdar honum, sem vel stæðir tengja ekki við og jafnvel þykir lágkúrulegar. Fólk sem lifir hvorki við viðunandi aðstæður né von um þær, sem hefur ekki sama svigrúm til að byggja upp börn sín eða tækifæri til að miðla þekkingu til þeirra, lifir líka við skert tækifæri til að styrkja næstu kynslóð.
Reiði sem siðferðislegt viðbragð
Siðferði er ekki bara röklegt, heldur líka tilfinningalegt. Viðbrögð við tvöföldu siðgæði, þar sem einn hópur á að axla ábyrgð en svíkst undan í eigin þágu – þótt hann fái álagsgreiðslur fyrir hana – og sýnir síðan skeytingarleysi eða skæting, eru ekki eingöngu rökleg.
Reiðin er ekki bara íslensk, hún er að breyta heiminum. Hún hefur breytt heiminum áður.
Eftir að Donald Trump var kjörinn Bandaríkjaforseti 2016 fjölgaði reiðiviðbrögðum við færslum á Facebook úr 1–2 prósent í 5–6 prósent hjá demókrötum og repúblikönum. Kjör Trumps var í það minnsta að hluta til uppreisn reiðs almennings gegn stöðnuðum kjörum, misskiptingu, elítu – og innflytjendum. Fólk fann farveg fyrir reiðina í lygnum lýðskrumara og fóli sem lúskrar á öðrum í opinberri umræðu, háum sem lágum, en innleiðir síðan skattkerfisbreytingar sem hagnast þeim auðugustu.
Afleiðing reiðinnar getur orðið verri en tilefni hennar.
Á Íslandi er ekki jafnmikil misskipting, þótt reynt hafi verið að innleiða hana, og þótt við höfum kosið auðmenn til að gæta hags okkar síðustu sex ár eru þeir ekki af sama meiði og Trump.
Heimilin eru alltaf í hættu
Venjulegur íslenskur launþegi býr við þá aðstöðu að heimili hans er í rauninni alltaf í hættu vegna sveiflugirni minnsta gjaldmiðils heims, og kerfis sem er hannað til að breyta húsnæðiseigendum og launþegum í höggdeyfa.
Það átti að kjósa um gjaldmiðilinn í kosningunum 2013, en málið var ekki raunverulega rætt vegna þess að tveir stærstu flokkarnir sveigðu frá umræðunni með því að lofa að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að myntbandalagi Evrópu, með framsali á valdi til fólks, en sviku það svo í eigin hagsmunaskyni þegar þeir komust í aðstöðu til.
Upplifun lágtekju- og millitekjufólks er að það er hver að verða síðastur að bjarga hag sínum áður en næsti skellur kemur og viðsemjendur þeirra hafa bjargað sér með brellum á meðan heimilin eru étin upp að innan af ofurvöxtum og/eða verðtryggingu. Núverandi fjármálaráðherra, einn aðalviðsemjandi launþega, aflaði sér til dæmis einbýlishúss síns með því að selja hlutabréf þegar hann hafði aðgengi að upplýsingum um vænt verðgildi þeirra sem kjörinn fulltrúi, á meðan almenningi var neitað um það.
Höggdeyfar fyrir efnahagssveiflur
Gjaldmiðillinn og vextirnir eru hannaðir til þess að nota almenning sem höggdeyfi í hruni, og þau auðugustu hafa margvíslegar leiðir til að koma ávinningi sínum undan og jafnvel hagnast þegar gjaldmiðillinn sveiflast.
Frelsi er ekki einkaeign þeirra auðugustu, heldur á það að eiga við um alla.
Það hefur sýnt sig um allan heim að hagsæld helst í hendur við stöðugleika, frelsi, félagslegan hreyfanleika og jöfnuð. Frelsi er ekki einkaeign þeirra auðugustu, heldur á það að eiga við um alla. Frelsið til að bæta kjör sín snýst ekki bara um að þeir ríkustu borgi sem lægsta skatta, heldur um getu og styrk almennings til félagslegs hreyfanleika. Auðvitað þarf að gæta að fjárfestingu og fyrirtækjum til að tryggja verðmætasköpun, en mannauður er ekki síður uppspretta verðmæta. Þegar gerð er krafa um sjálfbærni og samfélagslegra ábyrgð má færa sterk rök fyrir því að stjórnandi með hóflegar launakröfur sé á þann hátt hæfari leiðtogi en stjórnandinn sem stýrist fyrst og fremst af hærri launum.
Reiði verkalýðsforystunnar byggist ekki síst á reynslu af viðsemjendum þeirra, viðmóti þeirra og brotum á viðmiðum. Við þekkjum leiðina að jöfnuði og félagslegum hreyfanleika, og þar með eflingu mannauðsins okkar, en fyrsta skref í átt að stöðugleika er að viðsemjendurnir ávinni sér aukinn trúverðugleika sem þeir hafa fórnað í eigin þágu.
Athugasemdir