Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir umfjöllun RÚV um mál Jóns Baldvins Hannibalssonar hafa verið vandaða og hafa ótvírætt fréttagildi. Ekkert bendi til annars en að vinnureglur og siðareglur RÚV hafi verið virtar.
Í grein í Morgunblaðinu í dag svarar Magnús afarkostum sem Jón Baldvin og eiginkona hans Bryndís Schram settu í blaðinu í fyrradag. Sögðust þau mundu stefna útvarpsstjóra ef hann bæðist ekki afsökunar á fréttaflutningnum innan viku og drægi til baka fréttaflutning. Þá vildu þau að fréttamennirnir Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson úr Morgunútvarpi Rásar 2 yrðu áminntir.
Sjö konur hafa stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin um kynferðislegra áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda dóttur sinnar, Aldísar Schram, sem kom til viðtals í Morgunútvarpið.
Í grein sinni segir Magnús að með umfjölluninni hafi RÚV sinnt hlutverki sínu og skyldum. „Ef einhver er ósáttur við tiltekin atriði í fréttaflutningi tekur RÚV fúslega við athugsemdum og svarar með formlegum hætti,“ skrifar hann. „Ef viðkomandi er ósáttur við þá afgreiðslu sem hann fær er hægt að beina málinu til sérstakrar siðanefndar sem leggur sjálfstætt mat á framgöngu starfsmanna RÚV en að auki má benda á að allir geta skotið málum til Blaðamannafélags Íslands. Ef Jón Baldvin og Bryndís telja á sig hallað hvet ég þau til að beina málum í þennan formlega farveg sem er til staðar fyrir þau eins og aðra.“
Í Fréttablaðinu í dag svarar Helgi Seljan einnig fyrir umfjöllun RÚV. „Það er alveg sama hversu marga dálksentimetra Jón Baldvin Hannibalsson tekur undir þessar greinar sínar og hversu oft hann birtir þær, það er bara einn maður sem hefur orðið uppvís að því að halla réttu máli í sínum málflutningi vegna þessa alls og það ítrekað,“ sagði Helgi.
Þá birti Fréttablaðið í dag grein eftir Jón Baldvin með titilinn „Til varnar femínisma“. Í greininni rekur hann mál Steven Galloway, kanadísks rithöfundar, sem rekinn var frá University of British Columbia eftir ásakanir um kynferðisofbeldi. „Þetta mál hefur klofið #metoohreyfinguna og akademíska samfélagið í Kanada í tvær andstæðar fylkingar,“ skrifar Jón Baldvin. „Með eða móti réttarríkinu. Málið er orðið hápólitískt. Það snýst ekki bara um kvenréttindi. Það snýst um mannréttindi.“
Athugasemdir