24 þúsund fasteignir voru auglýstar til sölu á öllu landinu árið 2018. Þetta er 47% aukning frá árinu á undan, en þá voru rúmlega 16 þúsund fasteignir auglýstar. Ljóst er því að framboð fasteigna jókst verulega á sama tíma og sölutími hélst nokkurn veginn óbreyttur.
Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Sölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu breyttist lítið frá fyrra ári, en utan höfuðborgarsvæðisins hefur hann styst, bæði hvað varðar sérbýli og fjölbýli. Í fyrra var tíminn sem tók að selja íbúð í fjölbýli utan höfuðborgarsvæðisins um 100 dagar, miðað við 270 árið 2015.
Þá segir í skýrslunni að leiguverð hafi hækkað meira en íbúðaverð undanfarið samkvæmt þinglýstum samningum. Leiguverð hækkaði um 8,2% á milli ára en söluverð um 6,2% á höfuðborgarsvæðinu. Laun hækkuðu á sama tíma um 6,5% að meðaltali. Loks segir að 7000 íbúðir séu í byggingu þessa dagana, þar af 5000 á höfuðborgarsvæðinu.
Athugasemdir