Síðan ég var barn hef ég farið oftar til tannlæknis en flestir. Ég varð fyrir því óláni að brjóta framtennurnar á svelli fyrir utan Ísaksskóla og brjóta svo reglulega fyllingar og gervitennur eftir það. Einu sinni á vatnspósti, svo á kalkúninum á jóladag og loks í miðju karókílagi. Svo puttabrotnaði ég einu sinni í spurningakeppni, en það er önnur saga.
Á biðstofu tannlæknisins – fyrir tíma snjallsímanna – var lítið að gera en að glugga í tímarit. Og þau voru sjaldan þau ferskustu. En á milli fölnaðra eintaka af Húsum, Híbýlum, Vikum og Lífum glitti í það litríkasta og auðlesnasta. Hið nú sáluga Séð og heyrt.
Á síðum Séðs og heyrðs mátti berja augum flottasta og fallegasta fólkið sem allt hafði slegið í gegn. Kannski gerði einhver það gott einhvers staðar. Annar frumsýndi nýja kærastann. Sá þriðji hafði engu gleymt. Á biðstofunni lágu þessi blöð, gulnuð af olíu skjálfandi fingra þeirra sem biðu þess að vera boraðir, minningar um glysgjarna tilveru þeirra fínu og frægu.
Ég þarf enn að fara til tannlæknis reglulega, þótt tennurnar tolli að mestu. Þessa dagana hef ég þó Instagram, þar sem enginn hefur neinu gleymt og allir eru að gera það gott. Við erum öll séð og heyrð, líka ég sjálfur.
Athugasemdir