Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður segir að gyðingar séu „búnir að sauma sig inn í Evrópu á mjög lúmskan hátt á mjög löngum tíma“. Þess vegna þegi Evrópumenn þunnu hljóði um grimmdarverk ísraelskra stjórnvalda gegn Palestínumönnum.
Þetta kom fram í viðtali við hann í Lestinni á Rás 1 í gær en Páll Óskar hefur hvatt til þess að Eurovision-keppnin verði sniðgengin í ljósi þess að hún fer fram í Ísrael, ríki sem hefur haldið milljónum Palestínumanna í heljargreipum um áratugaskeið með ólöglegu hernámi, landtöku og mannréttindabrotum.
Í umræðu um framgöngu Ísraelsríkis gegn Palestínumönnum dró Páll Óskar víðtækar ályktanir um gyðinga. „Tragedían er sú að gyðingar lærðu ekki neitt af Helförinni. Í staðinn umbreyttust þeir í nákvæma afsteypu af sínum ógeðslegasta óvini,“ sagði hann.
Vart þarf að taka fram að orðræðan um gyðinga sem framandi afl sem smjúgi smám saman inn í evrópsk samfélög og beiti áhrifum sínum með skaðlegum hætti á sér djúpar rætur og hefur haft afgerandi áhrif á heimssöguna.
Samkvæmt skýrslu sem Mannréttindastofnun Evrópusambandsins gaf út í fyrra hafa fordómar gegn gyðingum færst í vöxt á undanförnum árum. Æ fleiri gyðingar upplifa sig berskjaldaða fyrir hatursorðræðu og aðkasti. 90 prósent þeirra gyðinga sem stofnunin ræddi við telja gyðingahatur fara vaxandi í heimalandi sínu og hátt í 30 prósent sögðust hafa sætt aðkasti.
Athugasemdir