Ef Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, fór raunverulega í 36 klukkustunda óminnisástand eins og hann lýsti í fjölmiðlum í gær, þá er það „alvarlegt merki um tímabundna heilabilun“.
Þetta er mat Ólafs Þórs Ævarssonar geðlæknis og haft eftir honum í litlum fróðleiksmola á Facebook-síðu Forvarna ehf., meðferðar- og fræðsluseturs. „“Blackout” eða minnisleysi vegna áfengisdrykkju er vegna alvarlegrar starfssemistruflunar í minnisstöðvum heilans. Ef slíkt ástand hefur varað í einn eða fleiri sólarhringa er það alvarlegt merki um tímabundna heilabilun,“ segir dr. Ólafur. „Ástæður eru yfirleitt mjög mikil áfengisneysla eða langvinnt áfengisvandamál. Einstaklingur með slík einkenni er ekki vinnufær. Ef hann gegndi ábyrgðarstarfi, sem t.d. flugstjóri, væri hann sendur í langt veikindaleyfi og kæmi ekki til vinnu fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir og áfengismeðferð.“
Gunnar Bragi Sveinsson sagði í viðtali á Hringbraut í gærkvöldi að hann myndi ekkert ekkert um samræður sínar og annarra þingmanna á barnum Klaustri þar sem hann hafi fallið í algert óminni um leið og hann kom á barinn. Minnisleysið hafi varað í einn og hálfan sólahring eftir barheimsóknina. Gunnar Bragi sneri aftur á þing í gær eftir nokkurra vikna launaleyst leyfi vegna Klaustursmálsins, en þeir Bergþór Ólason gengu einna harðast fram í óhróðri gegn samstarfskonum sínum.
Ekki náðist í Ólaf Þór við vinnslu fréttarinnar. Hann er sérfræðingur í geðlækningum, lauk doktorsprófi frá læknadeild Gautaborgháskóla árið 1998 og hefur starfað að lækningum og kennslu við háskólageðdeildir erlendis og á Íslandi.
Athugasemdir