Eitt. Árið 2009 var hámarksrefsing við því að misnota eigin börn, eldri en fjórtán ára, frá fjórum til átta árum lægri en hámarksrefsing fyrir að nauðga ókunnugri konu. Eins undarlega og það hljómar. Kerfið hefur ekki alltaf virkað fyrir þolendur.
Viðbragðsleysið
Árið 2010 sat Karl Sigurbjörnsson biskup fyrir svörum í Kastljósi vegna biskupsmálsins, máls sem kirkjan hafði þaggað niður árið 1996, með þeim afleiðingum að konur sem höfðu sakað þáverandi biskup, Ólaf Skúlason, um kynferðisbrot hrökkluðust úr landi, í felur eða aftur inn í tilneydda þögnina. Á þeim tíma var hættulegt að bera á valdamikla menn sakir um kynferðisbrot. Konunum var ekki trúað, þær voru smánaðar, lítillækkaðar ogg vanvirtar, innan kirkjunnar og á opinberum vettvangi, dregnar inn í lögreglurannsókn og hafnað af fjölskyldu. Það virkaði. Það þaggaði niður í þeim. Í fjórtán ár þögðu þær þunnu hljóði.
„Hvað á ég að segja við hana mömmu þína?“
Allt þar til dóttir biskups greindi fagráði kirkjunnar frá því af hverju hún treysti sér ekki í jarðarför föður síns og leitaði líka til biskups. Fagráðið hafnaði erindi hennar og taldi það ekki eiga við kirkjuna þar sem ofbeldið var framið innan veggja heimilisins. Stundum á sunnudögum þegar presturinn var í spennufalli eftir messuna, sagði hún frá, og barnastarfið þar sem hún hafði séð föður sinn sameinast Guði áður en hann fór heim og braut gegn henni. Eftir að hún hafði lokið frásögn sinni voru fyrstu viðbrögð biskups að stynja: Og hvað á ég að segja við hana mömmu þína? Guðrún Ebba Ólafsdóttir lét ekki segjast og óskaði eftir fundi með kirkjuráði, ekki síst vegna þess að hún vildi að prestarnir vissu það sem hún vissi, að konurnar sem kirkjan hafði áður hrakið frá sér voru að segja satt. Erindi hennar lá ósvarað í rúmt ár, eða þar til fjölmiðlaumfjöllun hófst um málið. Og þá. Loksins þá, var þeim trúað. Af flestum. Rannsóknarnefnd um starfshætti þjóðkirkjunnar komst að þeirri niðurstöðu að kirkjan hefði brugðist þessum konum og þær fengu ekki aðeins dæmdar bætur heldur það sem var þeim öllu mikilvægara – áheyrn og þá viðurkenningu og virðingu sem þær áttu skilið. Enn voru þó þeir sem efuðust.
Afstöðuleysið
Trúir þú Guðrúnu Ebbu?
Við verðum að virða það þegar fólk kemur fram með svona sögur. Allavega þegar um er að ræða börn. En ég get ekki kveðið upp dóm í þessu máli.
En við erum ekki að tala um dóma.
Nei, en ég vil bera virðingu fyrir hennar sögu, ég vil bera virðingu fyrir því að hún kemur fram og flytur sitt mál.
Það að bera virðingu fyrir – er það að trúa henni eða ekki? Þetta er nei eða já spurning.
Það er vandi að svara þessu. Ég vil allavega ekki rengja hana. Ég hef engar forsendur til að rengja hana. Við verðum að taka svona alvarlega. Við verðum að taka alvarlega þá kvöl sem þarna býr að baki.
Hikið sem birtist í viðtalinu sem vísað er til hér að ofan, þegar Karl Sigurbjörnsson var beðinn um að segja skýrt til um það hvort hann tryði Guðrúnu Ebbu eða ekki, var gagnrýnt á þeim forsendum að það endurspeglaði vinnubrögð kirkjunnar í málinu. Framan af einkenndust viðbrögðin fyrst og fremst af óbærilegu hiki og afstöðuleysi.
Af því að það er erfitt að taka afstöðu. Það er enn erfiðara þegar þú þekkir einhvern af góðu einu sem sakaður er um slíkan verknað. Sjálf baðst Guðrún Ebba afsökunar á að hafa ráðist að brotaþolum biskupsins föður hennar á sínum tíma. Með því að verja hann var hún að verja sig – leyndarmálið sem hún bar fyrir föður sinn, sem hafði alltaf talað um það sem hún væri að gera og þannig fært ábyrgðina yfir á barnið. Um leið taldi hann henni trú um að ef það kæmist upp hvað hún væri að gera þá yrði hún ein. Hún yrði ekki hluti af fjölskyldunni, fengi enga peninga, enga atvinnu. Hún lagði mikið á sig til að það kæmist ekki upp og óttaðist helst að hann segði sjálfur frá.
Þegar hún síðan sagði sögu sína sendu bróðir hennar, systir og móðir frá sér yfirlýsingu þar sem þau tóku afstöðu gegn henni. Bróðir hennar fylgdi yfirlýsingunni eftir með viðtali við Kastljósið þar sem hann gerði alvarlegar athugasemdir við málflutning hennar, því lýsingar hennar komu „engan veginn saman við okkar minningar af þessu heimili“. Baðherbergið sem hún hafði talað um sem einkabaðherbergi föður síns var í raun gestabaðherbergi, þótt faðir þeirra hefði jú geymt tannburstann sinn og rakdót þar. Og svo framvegis. Vísað var til þess að hegðun hennar hefði verið mótsagnakennd og samræmdist ekki hugmyndum um viðbrögð brotaþola eftir ofbeldi. Framkoma föður þeirra bæri þess ekki merki að hann væri ofbeldismaður. Móðir þeirra taldi sig muna betur. Bróðir hennar kannaðist ekki við kúgun. Þá virtist engu skipta að hann væri tólf ára yngri, lýsti ekki sömu reynslu af föður sínum og ekkert þeirra hefði verið viðstatt þegar hún sagði föður sinn hafa beitt sig ofbeldi. En allar lýsingar af ofbeldinu voru þeim framandi.
Er systir þín þá að segja ósatt? „Hún lýgur ekki orði í þessum frásögnum sínum. Þessar minningar hennar sem hún á, ég tel afar sennilegt að þær séu ekki raunverulegar lýsingar á atburðum sem eiga að hafa gerst, heldur sé þetta það sem er vel þekkt fyrirbæri innan sálfræði og geðlæknisfræði, sem kallast falskar minningar.“
Andstaðan
Málinu var líkt við martröð sem foreldrar hans hefðu mátt þola, sem og þau systkinin og börn þeirra, líkt og Guðrún Ebba sjálf, sem var á valdi falskra minninga. Að þessu leyti hafði sagan endurtekið sig. Árið 1996 birtust ófáar yfirlýsingar til stuðnings biskupi, þeirra á meðal voru tvö bréf frá systkinum konu sem sakaði hann um áreitni, þar sem fram kom að fjölskyldan stóð ekki með henni heldur biskupi. Seinna lýsti hún sárri reynslu sinni í viðtali við DV: „Við vorum sagðar geðsjúkar, bilaðar og jafnvel lygarar. Mín börn fengu að kenna á því. Fólk veittist að dætrum mínum og hellti sér yfir þær.“
Kirkjuráð harmaði ásakanirnar, Prófastafélag Íslands lýsti hryggð og „andúð“ á „gáleysi fjölmiðla“, 99 konur í sókninni sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu, 22 félagar úr kórnum og fyrrverandi formaður sóknarinnar benti á að það væru „engir aukvisar sem ná slíkum frama“. Um misskilning hlyti að vera að ræða, nú eða samsæri. Vitnað var í Carl Jung og þrá kvenna til að umbreyta raunveruleikanum, siðferðiskennd þolenda var gerð vafasöm og „faðir, fyrirgef þeim því þær vita ekki hvað þær gjöra“. Stígamót fengu líka að heyra það. „Þar virðast ofstækisöfl ráða ferðinni.“
Samandregið voru helstu þemun í Biskupsmálinu þessi:
Konurnar voru taldar ótrúverðugar. Vegið var að andlegri heilsu þeirra. Ásetningurinn sagður annarlegur. Þeir sem tóku afstöðu voru stimplaðir sem ofstækisfólk. Vald biskupsins var virt. Málið var þaggað niður.
Það var þaggað niður árið 1996 og aftur árið 2009, þar til fjölmiðlar hófu umfjöllun um málið ári síðar.
Þöggunin
Þessar konur – og fleiri – ollu straumhvörfum í því hvernig fjallað var um ofbeldi í íslensku samfélagi. Þau voru ansi mörg sem þurftu að bera miklar byrðar á meðan þau ruddu brautina fyrir aðra sem á eftir komu. Í dag er samfélagið opnara. Það má tala um ofbeldi, allavega að þú hafir orðið fyrir ofbeldi. Málið flækist aðeins um leið og gerandinn er nafngreindur, viðbrögðin gagnvart þolandum verða harðari, afstaðan gegn ofbeldinu vægari. En það var ekki átakalaust að komast þó þangað.
Það var ekki aðeins hættulegt þeim að stíga fram, það var einnig hættulegt þeim fjölmiðlum sem fjölluðu um málið.
Tíu árum eftir að þessar konur voru hraktar úr opinberri umræðu, árið 2006, greindi DV frá því að tveir ungir menn á Ísafirði hefðu kært kennara fyrir kynferðisbrot. Maðurinn fyrirfór sér og samfélagið snerist gegn miðlinum sem sagði fréttina. Alls rituðu 32 þúsund nafn sitt á undirskriftarlista gegn ritstjórnarstefnu blaðsins. Ritstjórar miðilsins létu af störfum og almennir starfsmenn á ritstjórninni hafa lýst því að þeir hafi mætt fyrirlitningu og skömm. Margdæmdur barnaníðingur mætti á ritstjórnarskrifstofuna til þess að láta starfsmennina heyra það.
„Þeir höfðu verið kallaðir morðingjar og ábyrgðin á sjálfsvígi mannsins var færð yfir á þá, með þeim afleiðingum að þeir fengu taugaáfall, lokuðu sig inni um tíma, og annar þeirra reyndi sjálfur sjálfsvíg“
Þöggunin bitnaði ekki aðeins á fjölmiðlinum, á meðan manninum var hampað, greinar voru skrifaðar í blöðin um mannkosti hans og reistur minnisvarði á Vestfjörðum liðu þolendur hans vítiskvalir. Sjö árum síðar stigu þeir fram og sögðu sögu sína í Kastljósi, hvernig samfélagið hafði ekki aðeins snúist gegn fjölmiðli heldur einnig þeim sjálfum. Hvernig þeir höfðu verið kallaðir morðingjar og ábyrgðin á sjálfsvígi mannsins var færð yfir á þá, með þeim afleiðingum að þeir fengu taugaáfall, lokuðu sig inni um tíma, og annar þeirra reyndi sjálfur sjálfsvíg. „Við týndumst bara, það snerist allt um helvítis DV,“ sagði annar þeirra. Síðar fengu þeir dæmdar hámarksbætur frá íslenska ríkinu vegna kynferðisglæpa mannsins, en talið var sannað að hann hefði brotið gegn þeim.
Eitt átakanlegasta dæmið um þöggun átti sér stað á Húsavík árið 1999. Ung stelpa kærði bekkjarbróður sinn fyrir nauðgun. Hann var dæmdur í héraði en samfélagið snerist gegn henni, taldi niðurstöðu héraðsdóms ranga þrátt fyrir að hann hefði játað í fyrstu, áður en hann dró játninguna til baka. Á annað hundrað manns skrifaði undir stuðningsyfirlýsingu við dæmdan nauðgara sem birtist í bæjarblaðinu. Fullyrt var að hún hefði kallað nauðgunina yfir sig og nær væri að kalla hana nauðgara en manninn, sem Hæstiréttur staðfesti dóminn yfir. Hún hraktist burt frá bæjarfélaginu og úr landi.
Það er vont að taka ekki afstöðu. Enn verra að taka afstöðu með gerandanum. Þeir reyna gjarnan að fá okkur til þess og nota þá aðferðir sem eru sambærilegar því sem birtist okkur í Biskupsmálinu.
Aðförin
Tökum nokkur dæmi.
Árið 2011 sendi þjóðþekktur maður, sem var kærður fyrir nauðgun, frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að hann hefði kært brotaþola fyrir rangar sakargiftir, gerði henni upp annarlegar hvatir og sagði að tilgangurinn væri „einvörðungu að sverta mannorð mitt“.
Erfitt er að ímynda sér hversu heltekin þessi stúlka, sem var þá nýorðin átján ára og hafði engin tengsl við þennan mann önnur en að hann hafði verið þjálfarinn hennar, hefði þurft að vera til að fórna sjálfri sér með þeim hætti. Að leggja það á sig að leita til neyðarmóttöku eftir samskiptin við hann, kæra hann til lögreglu og ganga í gegnum allt kerfið og opinbera umræðu þar sem birtar voru myndir af henni, látið var að því liggja að hún væri drifin áfram af „öfgafemínistum“ og pólitík, málið væri eitt samsæri gegn manninum, ef tilgangurinn hefði aðeins verið sá að hafa áhrif á almenningsálitið á manni sem var henni nánast ókunnugur.
Í sömu yfirlýsingu ýjaði maðurinn að því að hún væri sjálf sek um glæpsamlega háttsemi: „Það er jafnframt refsivert að hafa samband við handrukkara í þeim tilgangi að kúga fé út úr fólki.“ Engar sönnur voru færðar á heimsóknir handrukkara og slíkum málflutningi var vísað á bug af lögmanni hennar. Kærum beggja aðila var vísað frá. Kæru annarrar konu á hendur manninum var einnig vísað frá. Enginn veit nákvæmlega hvað þeim fór á milli. Það eina sem við vitum er að vitni sögðu konuna hafa komið út af heimili mannsins í miklu uppnámi, þar sem hún var „í algjöru rusli, titraði og skalf. Við þurftum eiginlega að bera hana inn í leigubílinn,“ sögðu vinkonur hennar og leigubílstjórinn, sem ók henni beint niður á spítala þar sem hún fékk læknisaðstoð, staðfesti lýsingar þeirra.
Sama hvað gerðist þetta kvöld er ljóst að samskiptin þeirra á milli höfðu mjög mikil og slæm áhrif á stúlkuna og henni leið auðsýnilega skelfilega illa. Í stað þess að líta í eigin barm og skoða hvað olli þessari miklu vanlíðan réðst maðurinn á stúlkuna í opinberri umræðu og stillti sjálfum sér upp sem fórnarlambi.
Geðveikin
Ári síðar, 2012, varð einn áhrifamesti maður íslenskra stjórnmála að fórnarlambi dóttur sinnar, eða það var sú mynd sem hann reyndi að draga upp þegar Guðrún Harðardóttir greindi frá því að þegar hún var unglingur hefði Jón Baldvin Hannibalsson, sem kvæntur var frænku hennar, sent sér óviðeigandi og klámfengin bréf. Bréfin hefði hann ekki sent heim til hennar heldur í grunnskólann sem hún gekk í. Sagði hún að framganga hans hefði verið þeim hætti að hún hefði kært hann til lögreglu. Málið var fellt niður á þeim forsendum að hluti þess var fyrnt og annað átti sér stað utan íslenskrar lögsögu. Þegar Jón Baldvin var inntur eftir skýringum sagði hann: „Þetta á ekkert erindi við almenning, ekki frekar en geðveiki dóttur minnar.“
Fram að því hafði dóttir hans aldrei komið til sögu vegna málsins. Hún hafði ekkert með bréfasendingar hans að gera. Eða frásögn Guðrúnar Harðardóttur. En hann ákvað að fórna dóttur sinni til þess að skapa sér sterkari stöðu í opinberri umræðu um mál þar sem hann hafði gerst sekur um að klæmast við unglingsstúlku. Fleiri í fjölskyldunni tóku í sama streng og sögðu málið runnið undan rifjum dótturinnar, jafnvel þótt staðfest væri að hann hefði sent bréfin og eiginkonan viðurkenndi að málið hefði vakið hjá henni afbrýðisemi. Lítið var gert úr framgöngu hans, rætt um málið sem dómgreindarbrest og fjölskylduböl.
„Það er sorglegt og langt handan mennsku, smekks og dómgreindar þegar miskunnarlaust fólk reynir að gera sér gamalt heimilisböl fólks að féþúfu“
Þingmaður varaði við því að fólk keypti blaðið þar sem ætlunin væri að hafa æruna af manninum. „Það er sorglegt og langt handan mennsku, smekks og dómgreindar þegar miskunnarlaust fólk reynir að gera sér gamalt heimilisböl fólks að féþúfu.“
Það er gömul saga og ný að gera þolendum upp andlegt ójafnvægi og veikindi. Það er þekkt aðferð ofbeldismanna að telja þolendum sínum trú um að þeir séu geðveikir eða stilla því þannig upp gagnvart umhverfinu. Dóttir þessa manns hefur haldið því fram að faðir sinn hafi ítrekað farið fram á nauðungarvistun á geðdeild í kjölfar þess að hún bar á hann sakir um kynferðislega áreitni eða ofbeldi. En það hvort dóttir hans var geðveik eða ekki kom málinu ekkert við.
Árið 2014 fór fram aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar, oftast kenndan við Krossinn, gegn konum sem sökuðu hann um kynferðisofbeldi. Fyrir dómi lýsti fyrrverandi framkvæmdastjóri Krossins því þegar Gunnar greindi honum fyrst frá ásökunum, þrjár konur væru að bera hann sökum, ein væri geðveik, ein hefði framið sjálfsmorð eða dáið úr alnæmi og sú þriðja væri súludansmær.
Fram til þessa dags hefur Gunnar haldið fram sakleysi sínu og sagt ásakanirnar spretta af pólitík og valdabaráttu innan safnaðarins. Eiginkona hans var kærð til lögreglu fyrir hótanir vegna málsins, en Thelma Ásdísardóttir, sem sjálf sagði sögu sína í bókinni Myndin af pabba, greindi frá því að hún legði trúnað á frásagnir þeirra sjö kvenna sem sökuðu hann um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Velti Thelma því upp hvaða líkur væru á því að konur legðu æru sína að veði og færu í gegnum alla þessa vinnu, allt þetta álag á þær og þeirra nánustu, til þess eins að ljúga upp á mann til að styðja eina reiða í hópnum eða klekkja á trúfélagi, eins og hann hafði haldið fram. Thelma sagði síðan frá því að vegna þess að hún hefði tekið opinbera afstöðu með þessum konum hefði hún fengið símtal frá eiginkonu mannsins sem hótaði að beita áhrifum sínum gegn henni og ráðgjafarmiðstöð hennar, Drekaslóð, léti hún ekki af stuðningi við konurnar. „Hún talaði mjög illa um konurnar, kallaði þær aumingja, geðsjúkar og fleira í þeim dúr,“ sagði Thelma, en konan þvertók fyrir að þetta símtal hefði átt sér stað.
Árið 2017 svaraði annar þjóðþekktur maður fyrir frásagnir tvegggja kvenna af heimilisofbeldi með því að önnur konan hefði kært sig vegna þess að hann hefði ekki samþykkt fjárkröfur hennar. Hin væri í andlegu ójafnvægi og hefði aldrei komist yfir það að hann sleit sambandi þeirra.
Fórnin
Og núna. Nú hafa sjö konur stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin Hannibalsson um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Staðfest er að hann sendi frænku eiginkonu sinnar bréf þegar hún var unglingur. Frásagnir þeirra kvenna sem hafa stigið fram eru allar studdar af vitnum. Fleiri konur hafa tjáð sig á sérstökum #metoo hópi sem stofnaður var sérstaklega vegna þessa manns. Konur í þjónustustörfum senda nú frá sér nafnlausar frásagnir vegna hans. Von er á fleiri frásögnum.
Dóttir hans var ekki á meðal þeirra sem stigu fyrst fram í Stundinni en viðbrögðin voru þau sömu og áður. Að hún væri geðveik. Hún fylgdi reyndar í kjölfarið og bar föður sinn þungum sökum. Enn átti að afgreiða málið með veikindum hennar. Eins og veikindi hennar komi málinu eitthvað við. Eins og það sé sjálfkrafa samasem merki á milli þess að vera geðveikur og lygari. Allt í einu átti málið að snúast um það hvort hún væri veik eða ekki. Hún reyndi að sýna fram á að hún væri ekki veik. En jafnvel þótt hún væri veik, hvað segir það okkur um sannleikann í málinu? Ekkert. Væri þá ekki þess meiri ástæða til að hlúa að henni og hlífa í opinberri umræðu?
„Hvers vegna er elstu dóttur okkar svo mjög í nöp við foreldra sína, eins og raun ber vitni? Hversu margar eru þær fjölskyldur í okkar litla samfélagi, sem eiga um sárt að binda vegna geðrænna vandamála einhvers í fjölskyldunni? Hversu algengt er það ekki, að reiði og hatur, sem af hlýst, beinist fyrst og fremst að nánustu aðstandendum? Þetta er kjarni málsins,“ sagði í yfirlýsingu Jóns Baldvins Hannibalssonar.
„Hversu algengt er það ekki, að reiði og hatur, sem af hlýst, beinist fyrst og fremst að nánustu aðstandendum? Þetta er kjarni málsins“
Kjarni málsins er reyndar sá að fjöldi kvenna sakar hann um kynferðislega áreitni. Þær konur sem hafa stigið fram eru ekki á valdi dóttur hans, heldur stigu þær fram á eigin forsendum, vegna þess að þeim misbauð framganga hans og vildu varpa ljósi á framferði manns sem var um árabil í valdastöðu í íslensku samfélagi á meðan þær sátu eftir, báru skömm sína í hljóði og misstu trú á íslensku réttarkerfi og samfélagi sem hampar manni sem vanvirðir konur.
Aðhaldið
Um leið og hann réðst að dóttur sinni veittist hann að fjölmiðlum. „Það er satt að segja hreinn níðingsskapur að færa sér í nyt fjölskylduharmleik eins og þann, sem við höfum mátt búa við í áratugi, til þess að ræna fólk mannorðinu, í skjóli þess að vörnum verði vart við komið. Það verður hvorki réttlætt með sannleiksást né réttlætiskennd. Það er ekki rannsóknarblaðamennska. Það er sorp-blaðamennska.“
Fjölmiðlar hafa það hlutverk að veita valdi aðhald. Það á líka við gagnvart þeim sem misnota vald sitt til að brjóta á öðrum. Hlutverk fjölmiðla er að veita þeim rödd sem þaggað hefur verið niður í. Að sannreyna frásagnir þeirra. Og reynslan er sú að fólk stígur ekki fram af illvilja eða hefndarhug, heldur til þess að varpa af sér skömm sem var aldrei þeirra og segja upphátt að það bar ekki ábyrgð á ofbeldinu, stöðva þá sem meiða aðra með framgöngu sinni, auka vitund og þekkingu samfélagsins og um leið hvetja aðra til að leita sér hjálpar. Síðast en síst vill fólk fá viðurkenningu á því að það mátti enginn koma svona fram og uppreist æru, ekki aðeins vegna afleiðinga ofbeldisins heldur einnig því þegar samfélagið fordæmdi þá sem urðu fyrir ofbeldinu frekar en þá sem beittu því.
Auðmýkt er sjaldnast í fylgd þeirra sem hafa verið staðnir að því að koma illa fram við aðra. Viðbrögðin eru oftar en ekki einkennandi fyrir það viðhorf sem gerði þeim kleift að ganga fram með þessum hætti, að gera lítið úr bæði atvikum og þeim sem urðu fyrir barðinu á þeim, stilla sér upp sem fórnarlömbum og öðrum sem gerendum. Ráðast að þeim sem taka afstöðu. Alveg eins og við höfum séð í öllum þessum málum. Alveg eins og við sjáum í málflutningi þeirra þingmanna sem voru staðnir að rætinni kvenfyrirlitningu í umræðum á Klaustri, sem láta eins og þeir séu fórnarlömb umræðunnar og þjösnast áfram í stað þess að axla ábyrgð.
Ábyrgð okkar er að hlusta á frásagnir þeirra sem segja frá. Þeir sem stíga fram með sögu af ofbeldi leggja sjálfa sig að veði í von um að hægt sé að breyta samfélaginu til hins betra. Á endanum erum það við sem höfum valið. Við höfum val um að mæta þeim af virðingu. Við höfum val um að trúa þeim eða taka afstöðu. Þegar Sigrún Pálína bar sakir á biskup árið 1996 gerði hún það af ótta við að hann hefði meitt fleiri konur. Samfélagið brást við með því að dæma hana. Þegar Guðrún Harðardóttir sagði frá Jóni Baldvini Hannibalssyni árið 2012 bað hún fólk um að taka afstöðu. Það gerðu það fæstir. Eftir stendur spurningin af hverju það þótti ekki nóg að maðurinn hefði orðið uppvís að því að skrifa klámfengin bréf til unglingsstúlku. Hversu margar konur þarf maður að meiða til að það hafi áhrif á stöðu hans og ímynd?
Athugasemdir