Andstæðingur íslenskrar menningar, myndlistar og fegurðar er tepruleg kona í dragt, hún er allavega miðaldra og gælir einhvers staðar í hugskoti sínu við villutrú femínismans, ef til vill er hún líka trúuð. Það er allavega myndin sem var í fyrstu dregin upp af starfsmanni Seðlabankans sem kvartaði undan málverki af nakinni konu sem hékk uppi á skrifstofu bankastjórans.
Samt er það svo að við vitum ekki einu sinni hvort starfsmaðurinn er kona, enda er það aukaatriði. Og við vitum ekki einu sinni hvort það var bankastjórinn sjálfur sem kvartaði. Það má þó eiginlega teljast líklegt. Þessi starfsmaður er óvinur okkar, hann stendur gegn þeirri mynd sem við viljum draga upp af okkur sjálfum sem frjálslyndir listunnendur, óvinir tepruskapar og hatursmenn fasisma. Þessi starfsmaður er kærkomið tækifæri til að taka höndum saman um að hylla okkur sjálf og ýmsa öfundsverða eiginleika sem við viljum gjarnan að aðrir tengi okkur við. Listaverkið sem við vorum að standa vörð um var í þessu tilfelli ekki mynd af nakinni konu heldur sjálfsmynd okkar og við hengdum hana upp í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og pússuðum hana og fægðum svo að aðrir gætu dáðst að henni.
Fjöldi fólks mótmælti þannig þessari innrás fasismans í hin helgu vé listarinnnar. Ég er viss um að Gunnlaugur Blöndal hefur glaðst talsvert í kaldri gröfinni, hann málaði vissulega nokkur falleg verk á ferlinum, meðal annars af nöktum konum en var ekki sá djúpi hugsuður í list sinni og vænta mætti þegar haft er í huga að borgarastyrjöld braust út í landinu þegar einu verka hans var pakkað niður í kassa í Seðlabankanum og annað hengt upp í staðinn.
Ef málverkið hefði verið af húsi, fjalli, fallegum fossi eða bara hesti hefði ekki brotist út þessi listræni ágreiningur. Hann braust út vegna þess að málverkið var af nakinni konu og þess vegna er teprulegt að láta það fara í taugarnar á sér.
En má þá ekki setja listina í samhengi við umhverfi sitt og skoða hana sem slíka? Það er ekki algengt að rekast á nakta karlmenn nánast í fullri líkamsstærð á skrifstofum bankastjóra og forstjóra. Af hverju ætli það sé? Er líkami karla ekki fallegur? Þeir voru auðvitað sjaldnar viðfangsefni listamanna og af hverju ætli það sé?
Er það róttækt sem slíkt að hengja upp mynd af nakinni konu innan um og saman við alla jakkafataklæddu bankastjórana sem hafa fengið máluð af sér fremur litlaus og andlaus portrett í gegnum tíðina? Er þetta listræna frelsið sem við eigum að kappkosta að standa vörð um?
Er listin hafin yfir allt samhengi, alltaf viðeigandi, alls staðar?
Jafngildir það ritskoðun að taka eina mynd niður og hengja aðra upp í staðinn ef manni finnst fara betur á því?
Ég held að það hafi verið listrænn gjörningur að taka þessa mynd niður og mjög vel heppnaður sem slíkur. Már Guðmunsson seðlabankastjóri ætti að fá einhver verðlaun. Þetta var miklu róttækari og meðvitaðri aðgerð heldur en að mála eina af mörgum myndum af berrassaðri fyrirsætu sem liggur út af á legubekk þótt þær séu margar hverjar ágætar.
Í heila viku höfum við velt okkur upp úr þessu málverki og hvar það sé niðurkomið. Við höfum skoðað konumyndir Gunnlaugs Blöndal með gleraugum fagurkerans, femínistans, sagnfræðingsins, listfræðingsins, við höfum betrumbætt myndina, látið hana tala, sett á hana ritskoðunarmerki. Margir listamenn myndu drepa til að list þeirra fengi jafn afgerandi viðbrögð og umræðu.
Gunnlaugur Blöndal var ekki listamaður sem fór ótroðnar slóðir eða lá í stríði við samtíma sinn. Konumyndir hans þóttu einstök prýði í koníaksstofum betri borgara, þar sem vel megandi karlar reyktu vindla og nutu þess að dreypa á góðu víni.
Það er enginn hörgull á slíkum myndum þar sem karlkyns listamaður skoðar konulíkamann með sínum augum og festir ímynd sína með pensli á striga, það er líka til marks um gamla tíma þar sem konurnar voru oftar fyrirsætur en listamenn. Myndin sem olli fjaðrafokinu núna hangir uppi í stofnun þar sem karlar hafa ráðið ríkjum, heimur peninganna hefur verið heimur karla, flennistór málverk af berum konum ýta fremur undir þessa ímynd og gegna þar svipuðu hlutverki og uppstoppuð höfuð af veiðidýrum eða bikarar fyrir afrek á golfvellinum.
Í öðru samhengi gæti fegurð myndarinnar kannski notið sín betur.
Ef einhver reynir að leggja lykkju á leið sína til að misskilja mig, þá er ég á móti því að banna list og ég er líka á móti ritskoðun. Við eigum að horfa á listaverk og velta fyrir okkur hvernig þau tala til okkar. Við skiljum þau kannski ekki alltaf og það er alls ekki nauðsynlegt að hafa á þeim neina skoðun. En við eigum að njóta þeirra eða láta þau fara í taugarnar á okkur. Eða eitthvað.
Annars eru þau dauð.
Og þöggun er alls ekki betri, eiginlega verri.
Það felur í sér að við eigum ekki að gera opinberlega aðsúg að þeim sem sjá í þeim aðra merkingu eða annan boðskap en við. Það er engin hætta á ferðum.
Sjálfsagt verður konumyndin ekki lengi í skammarkróknum í kjallara Seðlabankans, hún er orðin fræg og fær að njóta sín annars staðar.
Yfirbragð fyrirsætunnar hefur líka fengið á sig reynslufegurð. Listrænn gjörningur seðalabankastjóra hefur blásið í hana nýju lífi, hún er ögrandi á alveg nýjan hátt, eins og hún ætli að standa upp af legubekknum og gefa áhorfandanum utan undir eða labba sjálf niður í kjallara og breiða yfir sig af því hún er að fá kvef og leið á að hanga í vinnunni þegar aðrir geta bara farið heim og dottið í það eða rifist á Facebook.
Athugasemdir