Postura, meðhöndlarastofa Jóhannesar Tryggva Sveinbjörnssonar, sendir þeim viðskiptavinum hlýjar kveðjur sem haldið hafa tryggð við fyrirtækið þrátt fyrir að tugir kvenna hafi sakað Jóhannes um kynferðisbrot. „Við hjá Postura erum virkilega þakklát stuðningi frá öllum þeim viðskiptavinum sem halda traust og trú við okkur, stundum þegar blæs á móti og þá er tvennt í stöðunni að fara í skjól eða berjast á móti vindi. Hlökkum til hvers dags með ykkur, kv postura Crew,“ segir í færslu sem fyrirtækið birti á Facebook nú í byrjun vikunnar.
DV og Fréttablaðið greindu frá því fyrir jól að tæplega 30 konur hefðu leitað sér lögfræðiaðstoðar vegna meintra brota Jóhannesar Tryggva gegn þeim. „Ég sérhæfi mig í losa um viðnám og spennu, leiðrétta líkamsstöðu og lagfæra verki í stoðkerfinu,“ er haft eftir Jóhannesi á vef fyrirtækisins. Hann hefur gefið lítið fyrir ásakanirnar, gert lögmanni kvennanna upp annarlegar hvatir og hvatt karlmenn til að manna sig upp gagnvart „crazy bitches þarna úti“.
Elísabet Ýr Atladóttir, femínisti sem hefur látið talsvert að sér kveða í umræðunni um málefni kynjanna undanfarin ár, vekur athygli á tilkynningu fyrirtækisins á Facebook. „Maðurinn sem rekur þessa stofu, Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson, hefur verið kærður af amk 15 konum fyrir kynferðisbrot,“ skrifar hún. „Það er greinilega bara mótvindur og leiðindi sem þarf smá samstöðu gegn. Hann virðist rosalega þakklátur fyrir þau sem hunsa það algjörlega að það er verið að kæra hann margfalt. Hann hefur gert grín að þessu, gerir lítið úr konunum sem ásaka hann, þakkar svo fyrir meðvirkni fólks,“ skrifar hún.
Athugasemdir