Sú málsmeðferð sem Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur kynnt vegna Klaustursmálsins eru pólitísk réttarhöld, til þess gerð að ná fram hefndum gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Engin lög hafi verið brotin en nú hyggist Steingrímur brjóta lög og þingsköp Alþingis í þessum hefndarleiðangri sínum.
Þessu heldur Sigmundur Davíð fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar fer hann í löngu máli yfir það hvernig hann telur að framganga Steingríms þegar kemur að meðferð Klaustursmálsins sé á pari við pólitísk réttarhöld, sem birtist nú í því að Steingrímur hyggist breyta einhliða og afturvirkt lögum til að ná fyrirfram gefinni niðurstöðu. Vísar Sigmundur þar til áforma Steingríms um að kosin verði ný, eða auka, forsætisnefnd Alþingis til að afgreiða Klaustursmálið á þeim grundvelli að sitjandi forsætisnefnd sé vanhæf í málinu. Sú forsætisnefnd gæti þá vísað Klausturmálinu til siðanefndar Alþingis.
„Viðhorf Steingríms til mín er vel þekkt. Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi.“
„Þetta stangast á við lög um þingsköp á svo víðtækan hátt að hægt væri að skrifa heila grein bara um það. Eins og fram kom að ofan telst siðanefndin vanhæf, verandi undirnefnd forsætisnefndar. Öllum má þá vera ljóst að sérstök undirnefnd vanhæfrar forsætisnefndar valin af vanhæfu fólki í trássi við lög til að afgreiða mál með fyrir fram ákveðnum hætti væri sjálf vanhæf. Þá skiptir engu máli þótt þeir sem létu hafa sig út í slíkt segðust ætla að leggja eigið mat á málið. Forsendurnar lægju fyrir, umboðið væri í andstöðu við lög og vanhæfi hinnar nýju undirnefndar augljóst,“ skrifar Sigmundur.
Segir Steingrím telja sig eiga harma að hefna gegn sér
Sigmundur segir engin lög hafa verið brotin í Klausturmálinu, sem hann kýs að kalla hlerunarmálið, önnur en þau að orðaskipti hans sjálfs, þriggja þingmanna Miðflokksins og tveggja þáverandi þingmanna Flokks fólksins hafi verið tekin upp. Segir Sigmundur að með því hafi verið „brotin mannréttindi þeirra sem teknir voru upp og þeirra sem talað var um.“ Þeir sem sátu að sumbli á Klaustri umrætt kvöld og höfðu margskonar ósiðlegt orðfæri uppi hafi ekki gerst sakir um neitt annað en einmitt það, að hafa upp dónaleg orð í einkasamtali. Segir Sigmundur að fyrir vikið hafi þeira liðið sálarkvalir og „þegar þolað grimmilegri refsingu en nokkur dómstóll myndi telja viðeigandi.“
Framferði Steingríms segir Sigmundur að sé einstakt í sögu Alþingis. Margir hafi haft efasemdir um hversu heppilegur hann væri til að gegna hlutverki forseta Alþingis og með þessari framgöngu hafi hann rennt stoðum undir þær efasemdir með afgerandi hætt. „Viðhorf Steingríms til mín er vel þekkt. Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi. Þó blasir við að ekkert af því sem ég sagði í einkasamtali sem tekið var upp með ólögmætum hætti jafnast á við fjölmargt sem þingforsetinn sjálfur hefur sagt og gert opinberlega að yfirlögðu ráði.“
Athugasemdir