MeToo ráðstefnu stjórnmálaflokka á Alþingi hefur verið frestað. Ráðstefnan átti að fara fram á þingsetningardegi 21. janúar. Fréttablaðið greinir frá.
Framkvæmdastjórar flokkanna á þingi hafa skipulagt ráðstefnuna að undanförnu, en nú er ljóst að henni verður frestað um nokkrar vikur. Tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, viku af þingi fyrir jól vegna Klaustursmálsins. Þá vék Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, einnig af þingi vegna ósæmilegrar framkomu.
„Framkvæmdastjórar ákváðu að verða við ósk sem fram kom eftir að ljóst varð að ekki var samstaða allra flokka um að halda ráðstefnuna 21. janúar eins og áætlað hafði verið,“ segir Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri VG.
„Rök framkvæmdastjóra fyrir frestun eru þau að Metoo-ráðstefna á þingsetningardegi gæti beint athyglinni að óútkljáðum málum einstaklinga í tveimur flokkum á Alþingi, frekar en því stóra samfélagslega vandamáli sem við erum að glíma við. Ráðstefnan er áfram á dagskrá en henni er aðeins frestað um nokkrar vikur,“ segir Björg Eva.
Athugasemdir