Vitalina Koval er baráttukona frá Úkraínu sem hefur lengi beitt sér fyrir réttindum hinsegin fólks í heimalandi sínu, meðal annars með uppsetningu félagsmiðstöðva í stærri borgum. Síðastliðin misseri hafa Vitalina og aðrir aðgerðarsinnar þó sætt ógnunum af hálfu öfgahægrimanna í landinu sem halda því fram að boðskapur þeirra sé „ósiðlegur“. Viðhorfin eru sprottin af hugmyndum Rétttrúnaðarkirkjunnar, en núverandi forsvarsmenn hennar hafa verið gagnrýndir fyrir að hvetja til haturs gegn hinsegin fólki í orði og verki.
Þann 8. mars, á alþjóðabaráttudegi kvenna, árið 2017 veittust tólf ungir karlmenn að Vitalinu, og öðrum sem mótmæltu í tilefni dagsins, með hótunum. Hún lagði fram kæru en úkraínska lögreglan lét málið falla niður. Þrátt fyrir atvikið var Vitalina staðráðin í því að láta óttann ekki halda aftur af sér. Aftur tók hún þátt í friðsamlegri kröfugöngu 8. mars 2018, að þessu sinni búin að taka loforð af lögreglu um fulla vernd til handa mótmælendum. Vitalina hélt að hún og vinir sínir væru öruggir. Önnur varð þó raunin. Undir lok dags réðust á Vitalinu sex meðlimir öfgahægrihópsins Karpatska Sich (Карпатська Січ), en fulltrúar hans hafa gerst sekir um hatursdrifið ofbeldi gegn Rómafólki, oft án afskipta yfirvalda. Sexmenningarnir skvettu rauðri málningu á andlit Vitalinu. Augu hennar byrjuðu að brenna. Hún lýsti sársaukanum sem löngum: „Ég gat ekki losnað við þá hugsun að ég myndi missa sjónina.“
Efnabruninn leiddi blessunarlega ekki til blindu en eftir aðhlynningu lækna, þegar Vitalina fór í skýrslutöku til lögreglu, beið hennar næsta áfall. Hún var látin upplýsa um heimilisfang sitt – stuttu frá staðnum sem árásarmenn hennar sátu í varðhaldi. Síðan hefur Vitalinu og fleira hinsegin baráttufólki verið veitt eftirför á leið heim til sín og tveir aðgerðarsinnar hafa sagt frá ofbeldi sem þeir sættu í kjölfar slíks. Vitalina er í hættu.
Bréf til bjargar lífi
Amnesty International er á meðal stærstu og þekktustu mannréttindahreyfinga veraldar, en helsta takmark samtakanna er framfylgd alþjóðalaga og staðla sem fram koma í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, meðal annars með pólitískum þrýstingi almennings. Auk beitingar pólitísks þrýstings geta stuðningsaðilar Amnesty International sent brotaþolum persónulegar kveðjur, segir Vala Ósk Bergsteinsdóttir, sem gegnir starfi fræðslustjóra hjá Amnesty á Íslandi. Samstaðan kann að vera ómetanlegt ljós í myrkrinu, en um þessar mundir fer fram hið árlega Bréf til bjargar lífi.
Þar eru Íslendingar hvattir til þess að skrifa undir mál tíu baráttukvenna sem sætt hafa óréttlátri meðferð í heimalandi sínu. „Bréf til bjargar lífi er stærsti árlegi viðburður Amnesty International en þá kemur fólk alls staðar að úr heiminum saman og þrýstir á stjórnvöld sem brjóta mannréttindi að gera breytingar. Markmið herferðarinnar er að koma á raunverulegum breytingum í lífi fólks og samfélögum sem hafa þjáðst eða eru í hættu á að verða fyrir mannréttindabrotum. Málin eru ýmiss eðlis en öll snúa þau að konum sem hafa látið til sín taka í baráttunni fyrir betri heimi,“ segir Vala.
Í dæmaskyni má nefna mál Atenu Daemi, sem barist hefur ötullega gegn dauðarefsingum í Íran, og Amal Fathy, sem gagnrýndi egypsk stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi þegar kemur að kynferðislegu áreiti.
„Þar eð fjölmargar deildir Amnesty International taka þátt sýnir samtakamátturinn virkilega hversu megnugur hann er. Árið 2017 söfnuðust 6,6 milljónir bréf og stuðningskveðjur og hér á Íslandi söfnuðust tæplega 100 þúsund undirskriftir,“ heldur hún áfram. Í ár er stefnt að öflun 70 þúsund undirskrifta enda erfitt að hunsa slíkan fjölda. 15 þúsund undirskriftir vantar upp á að það markmið náist og herferðinni lýkur um miðjan janúar. „Hver undirskrift skiptir máli,“ segir Vala.
Athugasemdir