Átta starfsmenn Ísafoldarprentsmiðju fengu uppsagnarbréf nú um áramótin. Um er að ræða ríflega tíu prósent allra starfsmanna prentsmiðjunnar en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins vinna þar um 60 manns. Ástæðan er, að sögn Kristþórs Gunnarssonar framkvæmdastjóra, hagræðingaraðgerðir.
Starfsmennirnir sem um ræðir vinna flestir eða allir í blaðaprentunardeild prentsmiðjunnar. „Við erum að breyta vaktakerfinu þannig að það henti betur framleiðslunni eins og hún er núna. Við sögðum upp þessum átta en svo er ekki víst að við þurfum að segja þeim upp endanlega. Við vonumst til að geta endurráðið þessa starfsmenn alla en það verður bara að koma í ljós,“ segir Kristþór.
Aðspurður hvort ástæðan fyrir hagræðingaraðgerðunum og þar með uppsögnunum væri að einhverjir þeirra aðila sem láta prenta sitt efni hjá Ísafoldarprentsmiðju væru að draga saman seglin í prentun svaraði Kristþór því til að svo væri ekki. Fréttblaðið er stærsti viðskiptavinur Ísafoldarprentsmiðju og orðrómur hefur verið uppi um að blaðið skuldi prentsmiðjunni ótilgreindar fjárhæðir umfram það sem venja er. Spurður hvort að eitthvað sé hæft í því sagði Kristþór að hann gæti hvorki né vildi svara því. „Ég svara því ekki, það er bara trúnaðarmál á milli okkar og okkar viðskiptavina hver staðan er hjá þeim hverju sinni.“ Spurður enn frekar hvort að ástæðan fyrir hagræðingaðgerðunum hjá prentsmiðjunni mætti rekja til mögulegra skulda Fréttablaðins eða breytinga þess á viðskiptum við prentsmiðjuna vildi Kristþór ekki heldur svara því.
Athugasemdir