Þingmenn Miðflokksins hafa kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að fram færu vitnaleiðslur og öflun sýnilegra sönnunargagna um atburðina á Klaustri, til Landsréttar.
Gera þingmennirnir, þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá kröfu að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi, enda telja þau að forsendur dómsins fái ekki staðist.
Stundin hefur kæruna undir höndum en hún var send 19. desember síðastliðinn. Þar kemur fram að þingmennirnir hafi þegar óskað eftir myndefni úr eftirmyndavélum frá Klaustri og Alþingi, enda telji þeir mikilvægt að upplýsa um málsatvik þann 20. nóvember á Klaustri bar.
Grunsamleg mynd
Lögmaður Miðflokksmanna, Reimar Pétursson, vekur athygli á því að Bára hafi greint frá því í fjölmiðlum hvernig hún „sperrti eyrun“ og „þóttist“ vera að lesa ferðamannabæklinga sem hún hafði meðferðis þegar hún hljóðritaði samskipti þingmannanna. Þá vísar Reimar sérstaklega til myndar sem birtist í Stundinni og var tekin fyrir utan Klaustur „áður en varnaraðili hóf aðgerðir sínar nema, ef vera skyldi, að einhver annar hafi tekið hana“.
Af þessu dregur hann ályktun um einbeittan ásetning Báru: „Allt þetta gefur til kynna að þegar varnaraðili kom á Klaustur hafi hún komið þangað með það fyrirframgefna markmið að njósna um og taka upp samtöl sóknaraðila. Hún hafi gengið fumlaust til verka. Hún hafi haft meðferðis bæklinga sem hún notaði sem yfirvarp og búnað sem hentaði til verksins. Þá hafi hún dvalið á staðnum svo lengi sem í fjórar klukkustundir. Hafi hún þó sagst hafa verið á leiðinni á æfingu á leiksýningu sem ætlunin var að frumsýna tveimur dögum síðar, án þess að þetta hafi neitt tálmað þaulsetu hennar yfir upptökunum.“
Athugasemdir