Það kom mörgum á óvart að á síðasta þingi ASÍ var ekkert minnst á gjaldmiðilsmál þegar rætt var um nauðsyn þess að tryggja stöðugleika og kaupmátt. Í fyrri ályktunum ASÍ hafa verið áberandi spurningar þar sem stjórnmálamenn hafa verið spurðir um hvernig þeir hyggist tryggja stöðugan gjaldmiðil og hagdeild ASÍ hefur sýnt fram á hversu mikill skaðvaldur krónan væri gagnvart kaupmætti launamanna og komið í veg fyrir að almennir launamenn fái notið hagvaxtar í bættum kjörum. ASÍ hefur oft bent á þau forréttindi sem eru byggð inn í fjármálakerfið og eru til hagsbóta fyrir yfirstéttina, en á kostnað almenns launafólks. Hið sama á við hvernig stjórnmálamenn hafa þróað skatta- og bótakerfið frá aldamótum. Verkalýðshreyfingin hefur sett fram kröfur um að stjórnvöld framkvæmi breytingar á gjaldmiðlinum og komi í veg fyrir það brask sem ástundað er með fljótandi krónu. Fjandsamlegar stjórnvaldsákvarðanir, eins og til dæmis tilefnislausar gengisfellingar og inngrip í skatta- og bótakerfið, hafa endurtekið eyðilagt kjarabaráttu launafólks.
Í kjölfar þjóðarsáttar árið 1990 upplifðum við í fyrsta skipti í sögu hagstjórnar á Íslandi tímabil með stöðugu gengi og lágri verðbólgu. Það var reist á föstu gengi en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað árið 2001 að hverfa frá þeirri stefnu og fleyta krónunni og ferill krónunnar hefur eftir það verið samfelld hörmungarsaga. Krónan hefur valdið efnahagssveiflum en ekki jafnað þær, vextir hafa farið í hæstu hæðir og orðið til þess að ræsa verðtryggingarkerfið og staða launamanna hér á landi orðin mun lakari en bræður okkar og systur í nágrannalöndum búa við. Það er ljóst að hin íslenska fljótandi króna er of lítill gjaldmiðill til þess að vera trúverðugur grundvöllur nýrrar þjóðarsáttar. Í því sambandi má líta til þess að síðustu mánuði hefur krónan verið látin falla á annan tug prósenta eða líklega meira en fyrsta launahækkun í nýjum kjarasamningum mun verða. Hvernig ætlar verkalýðshreyfingin að takast á við þann vanda sem gjaldmiðillinn veldur, það er ofurvexti og óbreytt verðtryggingarkerfi? Verkalýðshreyfingin hefur og á að beita sér af krafti á þessum vettvangi og stöðva þannig forréttindabaráttu yfirstéttarinnar.
Sambærilegt við Brexit
Það hafa farið fram umræður um hvort við eigum að kanna einhvers konar tengingar krónunnar við evruna eins og Danir og Færeyingar hafa. Þessum vangaveltum hefur ávallt verið rutt af borðinu af ráðandi öflum í stjórnmálastéttinni með ýmsum brögðum, til dæmis með því að byrja eigi á því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt sé hvort við viljum ganga í ESB eða ekki. Hvernig í veröldinni er hægt að svara þeirri spurningu ef ekki liggur fyrir hvaða innihald yrði í samningum við ESB? Þetta væri sambærilegt því að stjórn ASÍ setti kjarasamninga í atkvæðagreiðslu áður en samningaviðræður við atvinnurekendur hæfust. Í þessu sambandi má benda á stöðu Brexit-viðræðna. Brexit-atkvæðagreiðslan fór fram án þess að nægar upplýsingar lægju fyrir um hvað tæki við, reyndar nákvæmlega sama aðferðafræði og ESB-andstæðingar hafa notfært sér hér á landi. Bretar hafa komið sér í fullkomlega vonlausa stöðu. Samkvæmt spá Englandsbanka myndi útganga án samnings valda efnahagslegum hamförum, mun verri en í bankakrísunni 2008. Bankinn telur að hagvöxtur myndi dragast saman um 8 prósent á svipstundu (svipað og nett sveifla krónunnar okkar), sterlingspundið myndi hríðfalla og eignaverð sömuleiðis. Draumurinn um Brexit er að breytast í martröð og breska þingið veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga.
„Á meðan við höfum gjaldmiðil sem er einungis hagstæður yfirstéttinni og stjórnað af henni þá er launamönnum gert að búa efnahagslegum þrælabúðum“
Undanfarnar vikur hafa stigið fram nokkrir hagfræðingar, talsmenn stjórnvaldsins og samtaka fyrirtækjanna og reynt að draga kjarkinn úr verkalýðsfélögunum. Þeir hafa haldið því fram að harkaleg kjarabarátta muni að endingu koma niður á lífskjörum almennings í landinu. Því er og haldið að okkur að lífskjör á Íslandi séu almennt góð og talsmenn verkalýðsfélaganna verði að kunna sig og vera penir. Í þeim töflum sem haldið er að okkur eru einvörðungu notuð meðaltöl, sem í raun segja ekkert til um þá fátækt sem ríkir meðal þeirra sem minnst hafa milli handanna. Þeir hafi nú þegar kallað yfir okkur 12 prósenta gengisveikingu. Ástandið hér á landi sé bara fínt, gengi krónunnar sé á góðum stað og ef launamenn passi sig þá muni hún ekki lækka mikið meira. Frekari gengisveiking muni auka hagnað fyrirtækjanna og minnka kaupmátt launafólks. Þessi framkoma og fullyrðingar sýna og sanna enn eina ferðina að kjarabarátta íslenskra launamanna byrjar og endar í gjaldmiðlinum og hagstjórninni. Á meðan við höfum gjaldmiðil sem er einungis hagstæður yfirstéttinni og stjórnað af henni þá er launamönnum gert að búa efnahagslegum þrælabúðum, eins og nýir verkalýðsforingjar hafa reyndar endurtekið sagt í viðtölum. En ég skil ekki hvernig það er hægt að ræða þau mál án þess að skoða gjaldmiðilinn.
Athugasemdir