Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, veifaði peningabúnti í ræðustól Alþingis og skoraði á þingmenn að gefa jólabónus sinn til góðgerðarsamtaka.
Inga tók til máls undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag og benti á að þingmenn hafi fengið 181 þúsund krónur í jólabónus. Hún ætli að gefa upphæðina til fátækra.
„Hvað ætlum við að gefa þjóðinni okkar í jólagjöf?“ spurði Inga. „Það er búið að slengja í lás öllum möguleikum til þess að bæta hag okkar minnstu bræðra og systra. Fjárlögin fyrir árið 2019 hafa verið afgreidd, fjáraukinn verður tekinn út núna á næstunni. Það er ekki möguleiki á að bæta kjör þeirra fyrr en árið 2020. Það er búið að slengja öllu í lás.“
Inga sagði konu hafa haft samband við sig í morgun, sem vinni hjá góðgerðarsamtökum. „Það voru 120 einstaklingar sem komu til hennar í gær og þáðu gjafakort, Bónus-kort. Hún sagði að það væri sárara en tárum taki að horfa á upp á hvað í rauninni eymdin hefur vaxið ótrúlega mikið á árinu 2018,“ sagði Inga.
Loks benti hún á þá upphæð sem þingmenn hafi fengið í jólabónus, 181 þúsund krónur. „Ég veit hvað ég ætla að gefa í jólagjöf. Ég skal sýna ykkur það, háttvirtur forseti. Ég tók út jólabónusinn minn og ég skora á alla hér að gera slíkt hið sama. Því við höfum efni á því að kaupa gjafakort fyrir fátækt fólk og rétta það til góðgerðarsamtaka og ganga á undan með góðu fordæmi. Gleðileg jól.“
Athugasemdir