Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa ætlað að rengja frásögn Báru Huldar Beck eða draga úr sínum hlut varðandi áreitni í hennar garð. Misræmi í frásögnum þeirra megi rekja til ólíkrar upplifunar.
Bára Huld birti fyrr í dag svar við yfirlýsingu Ágústs frá því fyrir helgi, þar sem Ágúst hafði greint frá því að hann hefði verið áminntur af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar fyrir að hafa hegðað sér ósæmilega við Báru, sem hann nafngreindi ekki þá.
„Misræmið sem hún rekur í svari sínu byggir á ólíkri upplifun“
Í svari Báru í dag kemur fram að Ágúst hafi að hennar mati dregið verulega úr atburðum. Þannig hafi Ágúst ítrekað reynt að kyssa hana, en ekki tvívegis eins og hann hafi lýst, og það þrátt fyrir hún hafi alltaf neitað honum og sett skýr mörk. Þá hafi hann niðurlægt hana með orðum um útlit hennar og gáfnafar. Bára segir hafi upplifað þvingandi áreitni, varnarleysi og niðurlægingu af hendi Ágústs.
Ágúst segir í nýjustu yfirlýsingu sinni að ætlun hans hafi aldrei verið að rengja frásögn Báru eða draga úr sínum hlut. „Misræmið sem hún rekur í svari sínu byggir á ólíkri upplifun. Ég lagði mikla áherslu á í okkar samtölum og í framburði mínum hjá trúnaðarnefndinni að gangast við minni hegðun. Hennar upplifun er auðvitað aðalatriðið í þessu máli.
Ég er í dag að leita mér faglegrar aðstoðar vegna hegðunar minnar og róta hennar. Ég bið Báru Huld enn og aftur innilegrar afsökunar á framkomu minni og þeirri vanlíðan sem ég hef valdið henni.“
Athugasemdir