B
ára Halldórsdóttir, konan sem sat skammt frá sex þingmönnum á Klaustri bar þann 20. nóvember síðastliðinn og hljóðritaði samskipti þeirra, lét sig ekki vanta á mótmælafundinn 1. desember þar sem kallað var eftir afsögn þingmannanna.
Fyrst leit hún við í Alþingishúsinu sem var opið gestum og gangandi í tilefni 100 ára fullveldisafmælis.
„Ég gekk þar um og hugsaði með mér: Jahá, hér er þetta fólk í vinnu og hér stend ég, sem var fluga á vegg,“ sagði Bára þegar hún kom fram undir sínu rétta nafni í viðtali við Stundina á föstudag. „Ég er þessi Marvin sem ruggaði bátnum.“
Þegar Báru varð litið yfir mótmælafundinn á Austurvelli varð hún meyr og fann sig knúna til að festa atburðina og upplifun sína á filmu. Stundin fékk leyfi Báru til að birta myndskeiðið:
„Það var yndisleg tilfinning að standa á Austurvelli,“ sagði Bára í viðtalinu við Stundina fyrir helgi. „Ég settist á bekk og við hliðina á mér sat kona sem var með dóttur sína með sér, litla ofboðslega sæta þriggja ára stelpu. Og ég hugsaði með mér: Í dag erum við saman að vinna að því að þegar þú verður orðin fullorðin kona, þá verði ekki talað svona um þig. Kannski fer þessi litla stelpa einhvern tímann á þing, og við skulum sjá til þess saman að þá verði ekki lengur talað svona um konur á þingi.“
Hér má lesa viðtal Stundarinnar við Báru Halldórsdóttur í heild.
Athugasemdir