Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, hyggst ekki segja af sér í kjölfar Klaustursupptakanna. Þetta staðfestir hún í samtali við Morgunblaðið.
„Ég geri mér grein fyrir því að ég lét þetta viðgangast,“ segir Anna. „En á sama tíma geri ég mér fulla grein fyrir því að það er ekki á mína ábyrgð að stoppa það þegar drukknir menn tala. Ég hefði átt að fara fyrr en ég gerði. Það eru alveg ótrúlega mörg „Ég hefði“.“
Anna náðist á upptöku ásamt þremur flokksbræðrum sínum og tveimur þingmönnum Flokks fólksins á Klaustri bar 20. nóvember síðastliðinn. Orðaskiptin voru mjög hávær og áttu sér stað í vitna viðurvist.
Í viðtali við RÚV á fimmtudag sagðist Anna Kolbrún ekki eiga sér málsbætur. „Ég ætla að hugsa mjög vel mína stöðu,“ sagði hún.
Á upptökunum má heyra Önnu Kolbrúnu taka þátt í að gera grín að Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingkonu, vegna fötlunar hennar. Þá tekur hún undir gagnrýni á Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, en er sú eina viðstödd sem grípur til varnar þegar hinir þingmennirnir gera lítið úr kvenkyns þingmönnum.
Í viðtalinu við Morgunblaðið segist hún aldrei hafa grátið jafnmikið á ævinni og undanfarna daga og hafi meðal annars brostið í grát á fundi formanna þingflokkanna í gær. „En ég er hætt að vera hrædd við að gráta. Það er alltaf ætlast til þess að fólk fari allt á hnefanum og sýni hvorki tilfinningar né veikleikamerki. Af hverju má ekki sýna tilfinningar?“
Miðflokkurinn þurrkist af þingi
Fréttablaðið birti í dag könnun Zenter rannsókna um fylgi stjórnmálaflokkanna. Samkvæmt henni fengi Miðflokkurinn 4,3% fylgi og næði ekki manni á þing. Yrði það rúmlega þriðjungur kjörfylgis flokksins. Könnunin var framkvæmd 3.-4. desember, eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 21,4% og Samfylkingin fast á hæla hans með 20,8%. Píratar mælast þriðji stærsti flokkurinn með 14,4% og Vinstri græn þar á eftir með 12,7%.
Þá mælist Viðreisn með 9,1%, Framsóknarflokkurinn með 8,5% og Flokkur fólksins með 5,7%.
Athugasemdir