Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, hóf þingfund í dag á því að lýsa því yfir að í ljósi fjölmiðlaumfjöllunnar hefði ævi- og starfsferilsskráning Önnu Kolbrúnar Árnadóttur verið könnuð. Niðurstaða þeirrar skoðunar væri að Anna Kolbrún hefði gefið réttar upplýsingar um menntun sína og störf. Þetta er í ósamræmi við upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum, meðal annars í Stundinni.
Steingrímur lýsti því að því hefði verið haldið fram að Anna Kolbrún hefði ranglega titlað sig þroskaþjálfa. Svo hefði ekki verið, það væri ljóst þegar yfirlit yfir menntun hennar á vef Alþingis væri skoðað. „Háttvirtur þingmaður hefur hins vegar starfað sem þroskaþjálfi,“ sagði Steingrímur. Þroskaþjálfi er lögverndað starfsheiti og enginn hefur heimild til að starfa sem slíkur án þess að hafa til þess menntun. Því er ljóst að Anna Kolbrún hefur annað hvort villt á sér heimildir hvað varðar menntun hennar eða starfað án heimildar sem þroskaþjálfi.
Þá nefndi Steingrímur einnig að Anna Kolbrún hefði verið vænd um að hafa haldið því ranglega fram að hún hafi verið ritstjóri Glæða, fagtímarits sérkennarar. Steingrímur sagði að það hefði Anna Kolbrún ekki skráð inn sjálf heldur hefði innskráning skrifstofu Alþingis mátt vera skýrari hvað það atriði varðar. „Réttara hefði verið að skrá að háttvirtur þingmaður hefði verið í ritstjórn, en það er ekki við háttvirtan þingmann að sakast,“ sagði Steingrímur.
Samkvæmt samtölum Stundarinnar við þingmenn var afar þungt yfir Önnu Kolbrúnu, sem sat í þingsal þegar Steingrímur flutti yfirlýsinguna. Mun hún hafa grátið á meðan.
Athugasemdir