Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og Kvenréttindafélag Íslands hafa boðað til málþings um kvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaorðræðu á morgun. Ber málþingið yfirskriftina „„Minna hot í ár“. Stjórnmálaorðræða á Íslandi, annó 2018“.
Fjallað verður um „hæfni feðraveldisins til þess að laga sig að nýjum tímum, birtingarmyndir kynjafordóma, fötlunarfyrirlitningu og hatursorðræðu stjórnmálamanna“ og spurt „hvort feðraveldið sé að bregðast við #metoo-byltingunni og hvort enn sé litið á konur sem aðskotahlut í stjórnmálum“, samkvæmt tilkynningu.
Dagskráin fer fram í Veröld - húsi Vigdísar, miðvikudaginn 5. desember frá klukkan 11:30 til 13:15. Málþingið hefst með röð fræðilegra ör-erinda og að þeim loknum munu stjórnmálamenn fjalla um málin í pallborði. Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.
Til máls munu taka Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Þorsteinn Víglundsson, alþingmaður og fyrrverandi jafnréttisráðherra, Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks.
Silja Dögg er ein þeirra kvenna sem heyra mátti rætt um á Klaustursupptökunum svokölluðu.
Málþinginu verður streymt í beinni útsendingu á Facebook-síðu RIKK.
Athugasemdir