F
réttavefur BBC fjallar um Klaustursmálið í dag og greinir frá því hvernig íslenskir þingmenn kölluðu konur tíkur, töluðu niður til þeirra með kynferðislegum vísunum og hæddust að þekktri baráttukonu fyrir réttindum fatlaðra.
Áður hafa norskir og sænskir miðlar fjallað um málið sem þykir hið sérkennilegasta.
„Sagt er að á upptökunni megi heyra einn úr hópnum hæðast að fötlun Freyju Haraldsdóttur með því að herma eftir sel,“ segir í frétt BBC, en fréttaveitan tekur fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segi hljóðið koma frá stól sem sé verið að færa, ekki frá manni.
BBC rifjar upp að Sigmundur Davíð hafi komist í hann krappann og þurft að segja af sér eftir að fluttar voru fréttir upp úr Panamaskjölunum í apríl 2016.
Haft er eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur, forsvarskonu Þroskahjálpar, að samstarfsmenn hennar og fatlaðir Íslendingar séu í áfalli eftir fréttaflutning undanfarinna daga. „Allir þingmennirnir sem þarna sátu ættu að segja af sér þingmennsku,“ segir hún.
Hún bendir á að örorkubætur á Íslandi séu lægri en atvinnuleysisbætur. „Nú veltum við því fyrir okkur hvort það sé vegna viðhorfa þingmanna. Við treystum ekki þessu fólki. Þetta er ófyrirgefanlegt.“
Athugasemdir