Samtal sex þingmanna Miðflokksins og úr Flokki fólksins, sem tekið var upp á Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember verður leiklesið í kvöld. Borgarleikhúsið stendur fyrir leiklestrinum í samvinnu við Stundina.
Lítilsvirðandi ummæli
Upptökum af samræðum þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Bergþórs Ólasonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sem og Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, þar sem þau sátu að drykkju á meðan þingið var enn að störfum var komið til Stundarinnar, DV og Kvennablaðsins, sem hafa greint frá lítilsvirðandi ummælum þingmanna um nafngreindar stjórnmálakonur, samkynhneigða og fatlaða, um leið og þeir mærðu hvern annan og státuðu sig af því að hafa misbeitt valdi sínu við skipan sendiherra.
Ummælin hafa dregið dilk á eftir sér, tveir þingmenn voru reknir úr Flokki fólksins vegna framgöngu sinnar og tveir þingmanna Miðflokksins eru nú komnir í leyfi. Hópur þingmanna hefur vísað málinu til forsætisnefndar Alþingis og óskað eftir því að siðanefnd Alþingis taki það fyrir. Þá hefur fjöldi þingmanna fordæmt ummælin. Á meðan nokkrar konur sem þarna voru teknar fyrir hafa svarað þessum málflutningi með harðorðum yfirlýsingum hafa aðrar sagt að þeim sem höfðu þig þarna í frammi sé ekki stætt að sitja áfram á Alþingi.
Konur í hlutverki karla
Í dag klukkan 20:30 verður hluti samtalsins leiklesinn í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar. Þar munu fimm konur vera í hlutverkum þingmanna, þær Brynhildur Guðjónsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir, en Hilmar Guðjónsson verður eini karlinn á sviðinu.
Í tilkynningu frá Borgarleikhúsinu segir: „Eitt af meginhlutverkum leikhússins er að varpa ljósi á málefni líðandi stundar. Með þessum viðburði leitast leikhúsið við að skoða ábyrgð og orðræðu kjörinna fulltrúa í lýðræðislegu samhengi.“
Streymt á Stundinni
Viðburðurinn, sem verður á Litla sviði leikhússins, er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Um leið verður leiklestrinum streymt á vefsíðu Stundarinnar.
Athugasemdir