Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, kallar eftir því að gripið verði til aðgerða gegn fjölmiðlum vegna frétta Stundarinnar og DV af orðaskiptum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustri Bar þann 20. nóvember síðastliðinn.
„Alvarlegast er þó ef raunin er sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál,“ skrifar Sigmundur Davíð á Facebook.
„Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.“
Eins og fram kemur í fréttum Stundarinnar voru þingmennirnir háværir og fóru orðaskipti þeirra fram í vitna viðurvist. Einn viðstaddra ákvað að hljóðrita samskiptin og sendi Stundinni upptöku. Þá náðist myndbandsupptaka af því þegar þingmenn yfirgáfu staðinn, sjá hér að neðan:
Vitni sem Stundin ræddi við sagði að sér hefði blöskrað hvernig þingmennirnir töluðu og ákveðið að kveikja á hljóðritunar-appi í símanum sínum.
Eftir að Stundin hóf fréttaflutninginn í gærkvöldi barst svo mynd frá öðrum aðila sem tekin var fyrir utan staðinn, en látæði þingmannanna vakti nokkra athygli í miðbæ Reykjavíkur þetta kvöld.
Sigmundur ber málið saman við símhlerunarhneykslið sem skók Bretland fyrir nokkrum árum.
„Ég man ekki eftir dæmi um slíkt [hljóðritunina og fréttaflutninginn, innskot blaðamanns] í íslenskri stjórnmálasögu og aðeins einu dæmi frá Bretlandi. Það var þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks. Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru Íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt.“
Athugasemdir