Hæstiréttur Íslands telur að lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavik Media sem byggja á gögnum úr Glitni sé fallið úr gildi og Glitnir HoldCo geti ekki lengur krafist þess að lögbannið verði staðfest með dómi. Hins vegar fellst Hæstiréttur á að veita Glitni HoldCo áfrýjunarleyfi að því er varðar kröfu um að viðurkennt verði að fjölmiðlunum sé óheimilt að byggja á gögnunum í fréttaflutningi og beri að afhenda gögnin. Þetta kemur fram í ákvörðun sem Hæstiréttur tilkynnti málsaðilum í dag.
Lögbannsmálinu er því ekki lokið fyrir dómstólum þótt nú liggi sú niðurstaða endanlega fyrir að lögbann sýslumanns var ólögmætt.
Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði öllum kröfum Glitnis HoldCo gegn Stundinni þann 2. febrúar 2018 og komst að þeirri niðurstöðu að lögbann sýslumanns á upplýsingamiðlun fjölmiðils um viðskipti valdhafa í aðdraganda þingkosninganna haustið 2017 hefði ekki staðist lög og stangast á við lýðræðishefðir og grunngildi tjáningarfrelsis.
Í dóminum var sýslumannsembættið gagnrýnt harðlega, meðal annars fyrir að hafa vikið frá þeim almennu reglum sem gilda um framkvæmd lögbannsgerðar þegar ákveðið var að tilkynna ekki gerðarþolanda, Stundinni, með hæfilegum fyrirvara um framkomna lögbannskröfu. Glitnir HoldCo áfrýjaði málinu til Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms þann 5. október síðastliðinn.
Þann 26. október, áður en áfrýjunarfrestur rann út, hélt Stundin áfram umfjöllun á grundvelli Glitnisgagnanna. Nokkrum dögum síðar leitaði Glitnir HoldCo leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Hæstiréttur tók afstöðu til leyfisbeiðninnar í dag.
Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að þegar Glitnir HoldCo sótti um áfrýjunarleyfi hafi lögbannið þegar verið fallið úr gildi. Að því leyti virðist dómurinn fallast á þau lagalegu rök sem lágu til grundvallar áframhaldandi umfjöllun Stundarinnar þann 26. október síðastliðinn. Í ljósi þessa telur Hæstiréttur að Glitnir HoldCo geti „ekki lengur krafist þess að það [lögbannið] verði staðfest með dómi“.
Öðru máli gegnir um kröfu Glitnis HoldCo um að viðurkennt verði að Stundinni og Reykjavik Media sé óheimilt að birta fréttir og aðra umfjöllun sem byggð sé á gögnum Glitnis og að fjölmiðlunum verði gert að afhenda gögnin. Þar, segir Hæstiréttur, „vegast á hinn bóginn á reglur um tjáningarfrelsi, sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar, og um friðhelgi einkalífs, sem varið er af 71. gr. hennar“.
Vildu skýrslutökur yfir blaðamönnum
Bent er á að í málinu reyni einnig á álitaefni um þagnarskyldu starfsmanna fjölmiðla um atriði varðandi heimildir fyrir fréttum. „Að þessu leyti getur málið haft verulega almennt gildi og eru því á þeim grunni efni til að verða við umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi,“ segir Hæstiréttur.
Í áfrýjunarbeiðni Glitnis HoldCo er því haldið fram að rangt hafi verið af Landsrétti að heimila ekki frekari skýrslutökur af blaðamönnum fyrir dómi. „Jafnframt lýtur ágreiningur aðila að því hvort héraðsdómur hafi ranglega hafnað kröfum leyfisbeiðenda um að þremur nafngreindum blaðamönnum í þjónustu Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. yrði gert að svara nánar tilgreindum spurningum fyrir dómi. [...] Þá telur leyfisbeiðandi að meðferð málsins í héraði og Landsrétti hafi verið ábótavant að því leyti að áðurnefndum vitnum hafi ekki verið gert að svara spurningum hans fyrir dómi, en af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að ómerkja héraðsdóminn í málinu. Leyfisbeiðandi telur enn fremur að dómur Landsréttar hafi verið rangur vegna þessa.“
Hæstiréttur hefur þegar vísað frá kröfu Glitnis HoldCo þess efnis að Stundin og Reykjavík Media afhendi fyrirtækinu gögn úr gamla Glitni. Eftir að Landsréttur staðfesti ákvæði í dómi héraðsdóms fyrr á árinu um að vísa aðal- og varakröfum Glitnis HoldCo frá dómi kærði Glitnir HoldCo þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem taldi að kæruheimild brysti og vísaði kröfunni frá. Nú er hins vegar útlit fyrir að krafan afhendingu gagnanna fái efnismeðferð í Hæstarétti.
______________________________
Fyrirvari: Fjölmiðillinn Stundin er aðili að málinu sem hér er fjallað um.
Athugasemdir