Embætti ríkissaksóknara hefur sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands í Aurum-málinu svokallaða. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarssonar aðstoðarríkissaksóknari aðspurður. Áfrýjunarfrestur í málinu rann út í gær. Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson og Magnús Arnar Arngrímsson voru sýknaðir í Landsrétti af ákæru um umboðssvik í málinu þann 24. október síðastliðinn.
Helgi Magnús segir að sýknudómum yfir þremenningunum verði öllum áfrýjað til Hæstaréttar fáist til þess leyfi frá réttinum. Með tilkomu Landsréttar Íslands, millidómstigs milli héraðsdómstóla og Hæstaréttar Íslands, þarf að sækja um áfrýjunarleyfi til að mega að fara með mál fyrir Hæstarétt.
Aurum-málið snýst um sex milljarða lánveitingu frá Glitni til einkahlutafélagsins FS38 ttil að kaupa hlutabréf Fons í bresku skartgripaversluninni Aurum um sumarið 2008. Lárus og Magnús eru ákærðir fyrir umboðssvik en Jón Ásgeir, sem var einn stærsti hluthafi Glitnis, fyrir hlutdeild í brotinu en til vara fyrir hylmingu eða peningaþvætti.
Athugasemdir