J
ón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður, fyrrverandi hæstaréttardómari og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum, kallar eftir því að Már Guðmundsson og fleiri embættismenn í Seðlabankanum verði látnir víkja vegna niðurstöðu Hæstaréttar þess efnis að Seðlabankanum hafi ekki verið heimilt að leggja stjórnvaldssekt á Samherja árið 2016 vegna meintra brota á reglum um gjaldeyrismál. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og aðaleigandi Samherja, hefur gengið lengra og talað um að Már hljóti að vera „á leiðinni í fangelsi“.
Jón Steinar fjallar um málið í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og fer hörðum orðum um aðgerðir Seðlabankans gagnvart Samherja. Dómur Hæstaréttar féll á fimmtudaginn, en þar er staðfest sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að Seðlabankinn hafi ekki verið í rétti þegar Samherji var sektaður vegna meintra brota á reglum um skilaskyldu á erlendum gjaldeyri. Ástæðan er sú að áður höfðu átt sér stað bréfaskipti milli Seðlabankans og Samherja sem mátti skilja sem svo að Seðlabankinn hefði endanlega fellt niður rannsókn á meintum brotum. Töldu dómstólar að Samherji hefði mátt binda réttmætar væntingar við þau skilaboð auk þess sem Seðlabankinn hefði ekki sýnt fram á á hvaða grundvelli honum hefði verið heimilt að taka málið upp að nýju.
Jón Steinar bendir á að málarekstur Seðlabankans á hendur Samherja hafi staðið yfir allt frá 2012 þegar gerð var húsrannsókn á skrifstofum fyrirtækisins. Í apríl 2013 kærði svo Seðlabankinn Samherja fyrir brot á gjaldeyrisreglum en sérstakur saksóknari vísaði málinu frá. Sams konar máli Seðlabankans gegn fjórum fyrirsvarsmönnum Samherja var svo aftur vísað frá tveimur árum síðar. Loks var bankinn gerður afturreka með stjórnvaldssektina í héraðsdómi í fyrra, og sú ákvörðun nú staðfest í Hæstarétti.
„Þetta er einfaldlega dæmi um mál þar sem handhafi opinbers valds misbeitir valdi sínu til tjóns fyrir starfandi atvinnufyrirtæki í landinu,“ skrifar Jón Steinar og bætir því við að Seðlabankastjóri beri ábyrgð á „þessi aðför bankans“ enda hafi hann sjálfur tekið „beinan þátt“ í henni. „Það fylgir því mikil ábyrgð að stjórna opinberum stofnunum sem fengnar eru heimildir til að beita borgara valdi þeim til tjóns. Þegar svo hrapallega tekst til sem hér er raunin hljóta þeir sem ábyrgð bera á aðför stofnunar að gjalda fyrir með starfi sínu. Um það ætti ekki að þurfa neinar málalengingar,“ skrifar hann.
Loks beinir Jón Steinar spjótum sínum að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna ummæla hennar um að dómurinn hafi ekki áhrif á stöðu seðlabankastjóra. „Samkvæmt lögum skipar sá ráðherra bankastjórann til starfa og ætti því að víkja honum úr starfi vilji hann ekki víkja sjálfur,“ skrifar Jón og bætir því við að málið sé dæmi um „þá spillingu sem ríkir á Íslandi við meðferð opinbers valds“.
Athugasemdir