Þingmenn úr flokki Pírata og Samfylkingar reyna að fá því framgengt að hætt verði að neyða þingmenn til þess að nota sæmdarheitin „háttvirtur þingmaður“ og „hæstvirtur ráðherra“. Samkvæmt núgildandi reglum sæta þingmenn athugasemdum forseta þingsins ef þeir ávarpa ekki eftir þessari föstu venju.
Flutningsmennirnir, Margrét Tryggvadóttir, Guðjón S. Brjánsson, Smári McCarthy og Björn Leví Gunnarsson, segja að í Finnlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð séu ekki gerðar kröfur um þess lags tignarávarp á þjóðþingum. Í þingsályktunartillögu sinni segja þau að ávarpsorðin „háttvirtur þingmaður“ og „hæstvirtur ráðherra“ séu jafnvel „notuð til að hæðast að stjórnmálamönnum og hafa þá snúist upp í andhverfu sína“.
Loks er það álit þeirra að fólk ávinni sér virðingu með breytni en ekki stöðu eða hlutverkum og því „eigi [ávarpsorðin] ekki við í nútímaþjóðfélagi, séu úrelt og samræmist ekki þeirri lífsskoðun að allar manneskjur verðskuldi virðingu og að samfélag okkar skuli byggt á jafnrétti. Verðskuldi fólk sérstaka virðingu umfram aðra borgara ávinni það sér hana með störfum sínum og breytni en ekki stöðu eða hlutverkum.“
Athugasemdir