Eitt af hverjum sex pörum eiga erfitt með að eignast barn. Ég þekki þetta af eigin raun þar sem ég glímdi við ófrjósemi vegna fjölblöðrueggjastokkaheilkennis (PCOS), sem ég greindist með þegar ég var rúmlega þrítug. Mér var bent á að panta tíma hjá Art Medica sem sérhæfði sig í ófrjósemi á þeim tíma. Ég var skoðuð og í ljós kom að margar litlar blöðrur höfðu hreiðrað um sig á eggjastokkunum með tilheyrandi erfiðleikum. Læknir á Art Medica tjáði mér að ferlið til að verða ófrísk væri í nokkrum skrefum. Til að byrja með var ég látin taka töflur sem örva egglos. Þetta átti ég að gera í tvö til þrjú skipti. Ef þetta gengi ekki yrði framkvæmd svokölluð tæknisæðing í tvö til þrjú skipti og að lokum var boðið upp á að fara í glasafrjóvgun. Eftir vægast sagt strembið ár, þar sem ég fór í allar þessar meðferðir og varð ekki ófrísk, má segja að andleg og líkamleg heilsa mín hafi verið komin í þrot.
Sérstaklega man ég eftir því hvað það var sárt að sitja í saumaklúbbnum og reyna að samgleðjast vinkonum mínum þegar þær tilkynntu að þær ættu von á barni. Ég fékk alltaf hnút í magann því ég gat bara ekki hugsað mér að verða ekki mamma. Árin liðu og draumurinn um móðurhlutverkið varð sífellt fjarlægri. Vinkonur mínar stóðu alltaf þétt við bakið á mér og kvöld eitt í saumaklúbb var ákveðið að ég skyldi vera með plan B. Þarna var ég einhleyp og planið var að ef ég yrði enn á þeim stað þegar ég yrði 36 ára myndi ég fara í tæknisæðingu með gjafasæði. Það hjálpaði mér mikið að hafa þetta plan, gaf mér von sem ég hélt fast í.
„Nú skaltu bara drífa þig heim og búa til barn.“
Á þessum tíma hætti ég að drekka, hætti að reykja, hætti á kvíðalyfjum sem ég hafði tekið alltof lengi og höfðu slæm áhrif á líkamlegu heilsu mína, því ég blés út af þeim og þau settu líkama minn í mikið ójafnvægi. Ég byrjaði að hreyfa mig reglulega og smátt og smátt varð bæði andleg og líkamleg líðan mín ótrúlega góð. Inn í líf mitt kom ungur maður og ekki leið á löngu þar til við vorum farin að ræða barneignir. Ég sagði honum mína sögu og að hann mætti búa sig undir það að verða ekki pabbi ef hann ætlaði að staldra við með mér, ég væri ófrjó og litlur líkur væru á við myndum eignast barn saman. Hann hvatti mig til að panta tíma hjá kvensjúkdómalækni og athuga stöðuna. Ég fór til læknis með kvíðahnút í maganum og vonleysið tók yfir. Tilhugsunin um að fara í fleiri meðferðir hjá Art Medica var óbærileg. Læknirinn skoðaði mig og horfði á mig glottandi. „Jaa hérna, hvað hefur þú eiginlega verið að gera? Það er bara allt í topp standi hér og ekki eina blöðru að sjá!“ Ég þuldi upp fyrir lækninum allt sem ég hafði gert til að bæta líf mitt og hann fullvissaði mig um að þetta hefði haft gríðarleg áhrif á frjósemi mína. Svo horfði hann á mig þegar ég var að labba út og sagði sposkur: „Nú skaltu bara drífa þig heim og búa til barn.“ Ég tók hann á orðinu og þremur dögum fyrir 36 ára afmælið mitt, þann 14. júlí 2016, eignaðist ég dóttur mína og einu og hálfu ári síðar eignaðist ég aðra. Þær eru litlu kraftaverkin mín. Þrátt fyrir að ferðalagið hafi verið fullt af hindrunum og mótlæti er hjartað mitt uppfullt af gleði og þakklæti, því ég varð móðir og það er sko besta hlutverk í heimi.
Athugasemdir