Allir hafa einhvern tíma upplifað kvíða og hefur hann fylgt mönnum frá örófi alda. Ekki er ósennilegt að fólk upplifi meiri kvíða samfara auknum hraða í tækniþróun og upplýsingaöflun ásamt harðnandi kröfum og samkeppni á vinnumarkaði. Ljóst er að upplýsingastreymi og þekking bæði sérfræðinga og almennings á kvíðavandanum hefur farið vaxandi hin síðari ár.
Kvíði getur verið bæði hjálplegur og hamlandi. Hér verður aðeins rætt um helstu flokka seinni tegundarinnar. Gagnlegur kvíði hefur þróast með okkur til nokkurs konar viðvörunar um að við förum varlega þar sem hætta getur skapast. Allt að þriðji hver maður fær hins vegar kvíðaröskun einhvern tíma á lífsleiðinni og algengt er að fólk þjáist af fleiri en einni tegund kvíða. Sá sem er með kvíðaröskun ofmetur aðsteðjandi hættu og vanmetur eigin getu til að takast á við aðstæður. Hrökkva eða stökkva-viðbragðið er virkjað þótt aðsteðjandi hætta sé lítil sem engin. Þegar um kvíðaröskun er að ræða hefur vandinn verið viðvarandi í sex mánuði eða lengur.
Tegundir kvíðaraskana
Ógagnlegum eða hindrandi kvíða, sem framkallar óþægilega líðan og kemur í veg fyrir að fólk geri það sem það þarf eða vill gera, hefur verið skipt upp í nokkur afbrigði:
1Félagskvíða þar sem óttinn er við að koma illa fyrir eða að gera mistök innan um aðra þannig að fólk upplifi sig lækka í áliti. Félagskvíði skiptist í þrjá flokka: Frammistöðukvíða, sem birtist til dæmis í kvíða fyrir atvinnuviðtöl eða að halda ræðu. Þann kvíða þekkja mjög margir af eigin raun og er hann ein algengasta tegund kvíða. Afmarkaðan félagskvíða, til dæmis kvíða fyrir því að tala við fólk í valdastöðum. Almennan félagskvíða, sem beinist að flestum félagslegum aðstæðum. Talað er um félagsfælni þegar félagskvíðinn er alvarlegur. Félagskvíði er næstalgengasta kvíðaröskunin.
2 Víðáttufælni þar sem óttinn beinist að opnum eða lokuðum rýmum, þar sem erfitt er að komast út, og að fá kvíðakast þar.
3Ofsakvíða þar sem óttinn snýst um að fá kvíðakast sem er mesti kvíði sem hægt er að upplifa en er ekki hættulegur engu að síður. Fólk óttast að missa stjórn á sér eða að vera að deyja. Nóg er að einkenni vari í mánuð til að uppfylla greiningarviðmið.
4Almenna kvíðaröskun þar sem kvíðinn getur beinst að hverju sem er, sérstaklega óvissu. Fólk hefur þá sífelldar áhyggjur af hinu og þessu.
5Áráttu og þráhyggju (OCD) sem einkennist af endurtekinni hegðun og hugsunum sem virðast órökréttar og erfitt reynist að hafa stjórn á. Fólki finnst það knúið til að gera sama hlut aftur og aftur í sérstakri röð eða tiltekinn hátt. Dæmi eru handþvottur, athuga eitthvað eða raða hlutum.
6 Sértæka fælni sem er yfirdrifinn og ýktur ótti tengdur afmörkuðum hlut, náttúrufyrirbæri, dýri eða aðstæðum. Hún er algengust allra geðraskana og sjálfsagt þekktasta tegund kvíða. Algengt er að fólk óttist til dæmis sprautur, lækna, tannlækna, rakara, skordýr, hunda, snáka, köngulær, blóð, flug, lyftur, göng, myrkur, óveður, vatn og hæðir.
Einnig má nefna heilsukvíða en þar beinist óttinn að mögulegum ógreindum sjúkdómi eins og krabbameini eða hjartasjúkdómi, og áfallastreituröskun (PTSD) þar sem fólk óttast minningar um fyrra áfall. Ótti við dauðann er alþekktur og finnst ófáum erfitt að ræða og hugsa um hann.
Líkamleg einkenni fylgja
Fælni einkennist af tvennu, forðun eða hliðrun þar sem fólk kemur sér hjá því að upplifa kvíðaáreitið eða flótta þar sem fólk fer úr kvíðaaðstæðum til að losna við óþægindin sem þeim fylgja. Oft beitir fólk einnig öðrum öryggisráðstöfunum til að koma í veg fyrir að ótti þess rætist, þannig að farið er í aðstæðurnar en ekki tekist fyllilega á við þær, sem styrkir svo kvíðaviðbragðið.
Líkamleg einkenni fylgja miklum kvíða, til dæmis magaónot, andlitsroði, ör hjartsláttur og öndun, sviti og skjálfti. Áleitnar kvíðahugsanir geta truflað svefn og hafa almennt neikvæð áhrif á lífsgæði.
Álag eins og meiri háttar lífsháttabreytingar og áföll geta komið af stað kvíða og fælni. Fólk er misútsett fyrir kvíða og hafa sumir viðkvæmt taugakerfi sem getur ýtt undir kvíða. Fullkomnunarþörf er áhættuþáttur fyrir kvíðaröskun.
Fólk óttast frekar það sem er mikilvægt að óttast út frá þróunarlegu sjónarmiði. Þetta er talið skýra af hverju lofthræðsla, vatnshræðsla og ótti barna við aðskilnað frá foreldrum sínum er algengari en ótti við það sem mönnum hefur ekki stafað langvarandi ógn af, eins og bílum.
Erfiðara að meðhöndla eftir því sem lengra líður
Langvarandi kvíði getur leitt til þunglyndis sem er önnur algengasta geðröskunin og þunglyndi getur leitt til kvíða, þannig að þetta tvennt helst oft í hendur, enda oft talað um þetta tvennt í sömu andránni. Skömm fylgir gjarnan kvíðavanda þar sem hann veldur því að fólk getur ekki gert sumt sem sjálfsagt þykir. Þá skerðist einbeiting og minni í kvíðaaðstæðunum.
Eftir því sem kvíði varir lengur því erfiðari verður hann viðureignar. Því er skynsamlegt að leita sér aðstoðar sem fyrst ef sjálfshjálparaðferðir eins og til dæmis slökun, djúpöndun, núvitundaraðferðir og jóga hafa ekki gagnast nægjanlega. Slá má því föstu að flestir klínískir sálfræðingar hafi góða þekkingu á kvíðavandamálum og ráði yfir gagnreyndum aðferðum til að vinna bug á vandanum, þar sem kvíðavandi er svo algengur. Hugræn atferlismeðferð hefur reynst gagnlegust. Að koma auga á og leiðrétta órökrænar hugsanir og horfast blákalt og markvisst í augu við kvíðavaldinn getur tekið vel á, þannig að gott getur verið að hafa skilningsríkan meðferðaraðila með sér í liði. Benda má á grein á doktor.is sem ber heitið Að leita sér sálfræðimeðferðar í þessu sambandi.
Alls ekki skyldi láta fordóma koma í veg fyrir að fólk leiti sér hjálpar og ætti það að vera jafn sjálfsagt og að láta laga bíl sem hefur bilað. Lífsgæðin gætu batnað.
Höfundur er áhugamaður um geðheilbrigðismál og hefur sjálfur átt við kvíða að stríða um árabil.
Athugasemdir