Drífa Snædal var nú í morgun kjörin nýr forseti Alþýðusambands Íslands. Drífa hlaut 65,8 prósent atkvæða. Hún er fyrsta konan sem kjörin er forseti ASÍ í 102 ára sögu sambandsins.
Tvö voru í kjöri og hlaut Sverrir Mar Albertsson 34,2 prósent atkvæða. Alls greiddu 293 atkvæði, Drífa hlaut 192, Sverrir 100 og eitt var ógilt.
Drífa er 45 ára, viðskiptafræðingur með meistarapróf í vinnurétti frá Háskólanum í Lundi. Hún hefur fram að þessu starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands en áður sem framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og einnig Samtaka um kvennaathvarf.
Athugasemdir