Sú mikla stéttaskipting sem er meðal aldraðra á Íslandi hefur ef til vill aldrei komið betur í ljós en nú, þegar barátta þeirra sem aðeins hafa ellilífeyri sér til framfærslu frá Tryggingastofnun er háð. Þeir eldri borgarar sem búa við þá gæfu að vera aðilar að lífeyrissjóðum sem greiða háar fjárhæðir til félagsmanna, jafnvel milljón á mánuði, fá auðvitað engin laun frá Tryggingastofnun vegna skerðinganna sem slíkum greiðslum fylgja og spá sjálfsagt ekki einu sinni í hver upphæð ellilauna er.
Ég velti því fyrir mér hvort hér sé komin skýringin á því hversu lítill árangur hefur náðst í baráttu Gráa hersins við stjórnvöld og tryggingakerfið, við að leiðrétta kjör aldraðra. Ég velti því líka fyrir mér hvort þeir sem stjórna baráttunni séu í sömu nauð og sá hópur sem eingöngu hefur ellilaun sér til að lífsviðurværis og þurfa á leiðréttingu að halda strax! Oft heyrist það sagt í hópi aldraðra að ekki sé von á að þeir sem eigi góðan lífeyrissjóð hafi skilning á kjörum þeirra sem lifa eingöngu á ellilaununum, jafnvel þó við þau bætist smágreiðsla frá lífeyrissjóði, sem síðan er skert. Það fólk sem ég hef kynnst í gegnum Gráa herinn er allt skínandi góðar manneskjur og allar af vilja gerðar til að rétta hlut þeirra sem verst eru settir. En ef þeir búa ekki við þau kjör að þiggja aðeins ellilaunin sér til framfærslu má vera að sú nauðsyn sem það er að ná breytingum strax og hvergi slaka á í baráttunni verði ekki sú sama í þeirra augum og hinna sem búa við slík kjör. Þó efast ég ekki um að viljinn sé fyrir hendi, en kannski vantar úthaldið. Hvað sem það er sem veldur, þá virðist sem kröfurnar hafi lognast útaf og baráttan, sem fór af stað með reisn, hefur ekki skilað neinum árangri.
Hyldýpi á milli
Formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), Ellert B. Schram, hefur svo sannarlega talað fyrir bættum hag aldraðra og tekið þátt í baráttunni við kerfið, þó ekki hafi verið árangur sem erfiði, eins og ég hef heyrt hann segja í viðtölum. En það er athyglisvert sem hann segir í leiðara í fyrsta tölublaðs ársins 2018 af Félagstíðindum, blaði FEB í Reykjavík, en þar segir hann frá samtali við fyrrverandi alþingismann sem gerir léttvægt grín að formanninum og segir Ellert hann hafa sagt við sig „hvað við séum alltaf að klaga og karpa um efnahag eldra fólks, þegar staðreyndin væri sú að eldra fólk þurfi ekki að kvarta hér á Íslandi og við ættum að hætta þessu grátklökka væli sí og æ“.
Þarna er einmitt komið dæmi um hið mikla hyldýpi sem er á milli þeirra sem hafa góðan lífeyri og þeirra sem ekkert hafa nema ellilífeyririnn sér til framfærslu. Ráðamenn og þeir sem völdin hafa, hafa söðlað undir sig með valdi sínu og búið til lífeyrissjóðskerfi sér til handa sem aðeins fáum útvöldum er ætlað, eins og til dæmis alþingismenn og stjórnendur fyrirtækja og stjórnsýslunnar. Svo erum við sem baráttuna heyjum að búast við skilningi frá ríkisstjórn sem telur marga sem eru í hópi þeirra sem háar lífeyrissjóðsgreiðslur hafa, eða fá, og kvíða því ekki ellinni. Við erum ennþá að búast við að ríkistjórnin leiðrétti þær skerðingar sem settar voru á 2009 að mig minnir og áttu ekki að standa nema í fáein ár en ekki hafa verið leiðréttar ennþá. Krafa okkar er að ellilaunin verði hækkuð í helming af því sem meðallaun landsins eru, varla geta þær kröfur talist háar. En hvernig dettur okkur í hug að sá hópur eldriborgara sem hafa þessar háu lífeyrissjóðsgreiðslur hafi einhvern skilning á baráttu okkar hinna eða áhuga á að bæta hag hins almenna ellilífeyrisþega, þegar þeir þekkja það ekki á eigin skinni?
Óréttlæti fólgið í að aðeins einstæðingar fái heimiluppbót
Í tímariti landssambands eldriborgara á Íslandi „Listin að Lifa“ 2016 er grein sem ber nafnið „Breytt í þágu aldraðra, segir ráðherra um ný almannatryggingalög“. Ráðherrann er Eygló Harðardóttir og fjallar greinin um skipulagsbreytingu á almannatryggingakerfinu. Þar kemur fyrir svohljóðandi spurning: „Nú kemur hækkun ellilífeyris mikið til í gegnum hækkun á heimilisuppbót sem eingöngu nýtist þeim sem búa einir. Hversvegna er farin sú leið? Svar ráðherra var: „Við erum að hækka alla bótaflokka en sérstaklega heimilisuppbótina. Þannig hugum við sérstaklega að þeim sem allra minnst hafa. Ýmsir og þar á meðal forysta eldriborgara hafa bent á að þeir sem búa einir, eru á leigumarkaði eða með mikinn heilsufarsvanda eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og því mikilvægt að huga sérstaklega að þeim. Þannig erum við að koma til móts við þá sem eru viðkvæmastir, í verstu stöðunni, bæði konur og karla með lágar tekjur“ segir ráðherra.
Það sem ég hjó eftir við lestur þessara greinar var að forysta eldri borgara hafi bent á að þeir sem búa einir þyrftu á hærri heimilisuppbót að halda en reyndar eru þeir hinir einu sem heimilisuppbót fá. Að þetta óréttlæti og brot á mannréttindum, að aðeins einbúar fái um það bil 60.000 krónum hærri ellilífeyri á mánuði í heimilisuppbót, hafi komið frá forystu eldriborgara er mér óskiljanlegt. Allir sem vilja vita, vita að þeir sem búa „ekki“ einir, verða í mörgum tilfellum að búa hjá börnum sínum eða vinum vegna þess að þeir hafa ekki getu til að leigja sér íbúð með þeim ellilaunum sem þeir fá, né mundu þeir standast greiðslumat til íbúðakaupa. Hvernig getur forysta eldriborgar verið svona úr takti við fólkið sem býr við lægstu bætur? Það er næstum borðleggjandi að þetta ákvæði hefur átt að eiga við hjón sem er alveg jafn óréttlátt, en ekki allir eldriborgarar eru svo vel settir að eiga heimili einir og sér. Þetta óréttlæti ætti að taka af strax og ekki mismuna fólki vegna búsetu, ég efast um að þetta stæðist lög. Allir eiga rétt á sama ellilífeyri, hver svo sem staða þeirra er.
Ég sætti mig ekki við að baráttan sé töpuð, ég vil að barátta eldri borgara sameinist kröfum vinnandi fólks, því kjarabarátta okkar er sú sama og þeirra sem sækja sinn rétt fyrir betri kjörum í þessu landi. Báðir hópar hafa svo sannarlega orðið útundan í „góðæri“ ríkisstjórnarinnar en á réttindum eldri borgurum hefur verið margbrotið.
Athugasemdir