Lögmaður Orra Páls Dýrasonar, fráfarandi trommara Sigur Rósar, krefst þess að Stundin stöðvi umfjöllun sína um frásögn ungrar, bandarískrar konu, Meagan Boyd, sem sakar hann um nauðgun, ásamt vitnisburð vinkvenna hennar. Ritstjórum Stundarinnar barst bréf þess efnis í dag.
Í bréfi lögmannsins er farið fram á að Stundin birti ekki frekari umfjallanir um frásögn Meagan Boyd, þar sem hún greinir frá því að Orri Páll hefði beitt hana kynferðisofbeldi. Stundin hafði ítrekað leitað til Orra Páls og umboðsskrifstofu hans vegna fréttar sem birtist í prentútgáfu Stundarinnar á morgun, en ekki fengið svör fyrr en bréf lögmannsins barst.
„Eftir því sem næst verður komist stendur til að birta viðtal í tímaritinu Stundinni við konuna og hugsanlega vinkonur hennar,“ segir í bréfinu. „Umbjóðandi minn vill þess vegna árétta, að málið snýst um að settar hafa verið fram fullyrðingar um alvarlega refsiverða háttsemi af hálfu umbjóðanda míns, sem engar sönnur hafa verið færðar fyrir. Umbjóðandi minn vinnur að því að fá sig hreinsaðan af þessum ásökunum, en hafði í hyggju að gera það utan kastljóss fjölmiðlanna. Hann telur þessar ásakanir bæði grófar ærumeiðingar í sinn garð og freklegt brot á friðhelgi einkalífs hans og fjölskyldu, ekki síst barna hans.“
Segir umfjöllunina einhliða
Í bréfinu segir að frekari skrif um málið feli í sér umfjöllun um persónu Orra Páls og einkalífshagsmuni hans, sem hann eigi rétt á að njóta friðar um. Þá sé umfjöllunin í samhengi sem hann kæri sig ekki um.
„Með bréfi þessu er farið fram á að Útgáfufélagið Stundin ehf. birti ekki frekari umfjallanir um ásakanir konunnar í garð umbjóðanda míns, sérstaklega meðan enn hafa engar sönnur verið færðar fyrir þeim og viðeigandi yfirvöld hafa ekki tekið þær til skoðunar. Athygli er vakin á því að Útgáfufélagið Stundin ehf. hefur ekki, og getur ekki, haft nokkra sennilega ástæðu til að ætla að ásakanir þessarar konu séu réttar. Umbjóðandi minn áskilur sér því allan rétt gagnvart fjölmiðlinum ef þessar ásakanir, sem umbjóðandi minn hefur alfarið hafnað, eru birtar og fá frekari útbreiðslu með einhliða umfjöllun í Stundinni, s.s. með viðtali við umrædda konu og fjölmiðillinn kjósi þannig að gera persónuleg málefni umbjóðanda míns að áframhaldandi fréttaefni, í stað þess að þau séu leyst á viðeigandi vettvangi.“
Umfjöllunin verður ekki stöðvuð
Ritstjórar Stundarinnar, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og Jón Trausti Reynisson, hafa svarað lögmanni Orra Páls. Þar er kröfu um stöðvun umfjöllunarinnar hafnað. Umfjöllunin verður birt í prentútgáfu Stundarinnar, sem kemur út á morgun.
Svar Stundarinnar er eftirfarandi:
Tilgangur umfjöllunar Stundarinnar snýr að því að greina frá bakgrunni, vitnum og eðli þeirra atvika sem ung kona, Meagan Boyd, greindi frá og hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum víða um heim.
Fjallað hefur verið um málið í öllum helstu fjölmiðlum Íslands, til dæmis Ríkisútvarpinu, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu, Vísi, og svo framvegis, en einnig erlendis, allt frá Washington Post til South China Morning Post.
Konan steig fram í anda Me-too-byltingarinnar, sem gengur út á að tryggja konum rými til frásagna, og verður umfjöllun um þau mál ekki afturkölluð. Frásögn hennar varð til þess að Orri Páll Dýrason sagði skilið við eina þekktustu hljómsveit Íslandssögunnar, sem á aðdáendur um allan heim. Umfjöllunin er ekki einhliða að öðru leyti en því að Orri Páll kaus að svara ekki spurningum vegna málsins, en þegar fram komnum skýringum hans er komið skýrt á framfæri í umfjölluninni.
Krafa Orra Páls um að umfjöllunin verði stöðvuð stangast á við tjáningarfrelsi konunnar, rétt almennings til upplýsinga um það sem er í samfélagsumræðunni og svo tjáningarfrelsi fjölmiðla. Að stöðva umfjöllun núna, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að vitni greini frá og að konan færi fram frásögn af umræddum atvikum, er óréttlætanlegt. Stundin mun verjast fyrir dómstólum ef þess krefst.
Fyrir hönd Stundarinnar
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri
Jón Trausti Reynisson ritstjóri
---
Fyrirvari um hagsmuni: Í greininni fjallar Stundin um mögulegt dómsmál sem fjölmiðillinn er beinn aðili að.
Athugasemdir