Fór á The Nun um daginn. „Ég ætla að fá einn miða á Nunnuna,“ sagði ég við miðasölustúlkuna og það hríslaðist um mig nostalgískur sæluhrollur, þegar nöfn allra mynda voru íslenskuð. Einhvern tímann þegar ég var lítill fór stóri bróðir minn í bíó með pabba. „Hvaða mynd eruð þið að fara á?“ „Við erum að fara á Guðföðurinn, hún er bönnuð börnum.“
Nunnan er ekkert sérstök mynd en engu að síður hressandi. Hryllingsmyndir eru hressandi. Þær slá á kvíða. Gera hann áþreifanlegan. Áhorfandinn sér daglegar áhyggjur sínar í öðru ljósi og hugsar: „En ég er allavega í talsvert betri málum en aumingja fólkið þarna á tjaldinu.“ Labbar svo hlæjandi út. Nunnan fjallar um nunnu frá helvíti sem ásækir góðar nunnur í klaustri einu í Transylvaníu. Aumingja góðu nunnurnar gera ekkert annað allan daginn en að biðja blessaðan guð um að bægja frá sér vondu djöflanunnunni með mjög litlum árangri. Líf þeirra er hrein og klár skelfing frá morgni til kvölds. Nunnan er alltaf eitthvað að þvælast þarna fyrir með sinn skelfilega svip. Hún meira að segja urrar eins og ljón.
„Sjónvarpið er stöðugt að koma okkur í opna skjöldu á þennan hátt“
Ég tók eftir því að í byrjun myndarinnar var upprifjun úr einhverjum bíómyndum sem ég hafði aldrei séð. Ég spurði sessunaut minn og hann sagði að þetta væri allt úr The Conjuring-myndaflokknum sem The Nun tilheyrir. „Ó?“ sagði ég. „Já, hefurðu ekki séð Conjuring og Conjuring 2 og Annabelle og Annabelle Creation?“ Nei, það hafði ég ekki gert. „Verð ég að hafa séð þær til að geta séð þessa?“ Nei, það reyndist ekki vera svo slæmt. En þessi upprifjun úr síðustu myndum sagði mér samt ekki mikið.
Nokkru áður hafði ég séð nýjustu Avengers-myndina. Hinar á undan hafði ég einnig séð og hafði haft þokkalega gaman af. En þessi nýjasta var með dálítið athyglisverðan endi – sem ég ætla að láta vera að segja frá hérna, ef vera kynni að einhver – tja, til dæmis einhver einbúi fyrir vestan – sé ekki búinn að sjá hana. En allavega þessi endir varð uppspretta umræðu og skoðanaskipta þar sem ég var staddur um daginn og einn aðdáandi myndarinnar var ekkert að skafa utan af því og sagði að þessi endir væri líklega með stærstu tíðindum kvikmyndasögunnar.
Vó! Það er ekkert annað. Ættu sumir kannski að slaka á? hugsaði ég. Vissulega djarft leikið hjá Avengers-mönnum – en ... já, bíddu bíddu ... hvað hefur þessi mynd fram yfir til dæmis ágætan þátt af Westworld? Sjónvarpið er stöðugt að koma okkur í opna skjöldu á þennan hátt. Og við erum ekki hoppandi upp með einhverjar stórar yfirlýsingar.
„Það er samt ekki endilega eðli þroskans. Þroska eiga menn að taka út hægt og rólega“
Það er nefnilega staðreynd að bíómyndin er farin að tileinka sér ýmsar forsendur sem tíðkast í sjónvarpi. Búinn er til sagnaheimur í kringum til dæmis drauga eins og í Conjuring eða ofurhetjurnar Avengers og „þáttum“ er dælt út á nokkurra ára fresti. Það sama gildir í raun með Star Wars – sjö eða átta þættir á fjörutíu árum – nema hvað áður var þetta heiðarlegra. Menn gerðu bara mynd og hún gekk svo vel að það var gerð önnur, en í dag er hugmyndafræði sjónvarpsseríunnar komin inn í þetta og kannski ekki nema von þegar sjónvarpshöfundar eins og JJ Abrams eru komnir með puttana í plottið á Star Wars. Svipað er með Avengers sem stjórnað er af Joss Whedon, sem meðal annars skóp þættina um Vampíruslátrarann Buffy.
Og allt er þetta gott. Mjög gott reyndar. Þetta er rökrétt afleiðing af þessari „gullöld sjónvarpsins“ sem menn byrjuðu að tala um fyrir sirka 15 árum og engan enda virðist ætla að taka. Auðvitað er sagnaheimur sjónvarpsseríunnar stærri heldur en litla smásagan sem er sögð í bíómynd. Og þá er ég alls ekki að gera lítið úr smásögum. Bíómyndin er sannarlega stórfenglegasta smásagnaformið, en köllum það þá líka réttum nöfnum. Sjónvarpsþáttaröðin er stóra örkin, þar sem persónurnar fá að lifa og þroskast. Þær koma ekki bara og fara. Þær allra eftirminnilegustu lifa stundum áratugum saman og við grátum þegar við þurfum að kveðja þær.
En þetta fer reyndar eftir hvers konar þáttaröð við erum að tala um. Í gamanþáttaröðum er ekki gott að persónurnar taki neinum þroska. Best er að þær séu bara alltaf eins – en þá í leiðinni nógu skemmtilegar (eða leiðinlegar, vitlausar eða gáfaðar) til að við viljum fá að hitta þær aftur og aftur.
Í bíómynd getum við séð persónu taka þroskakipp á 90 mínútum. Það er í raun mikill kostur ef persónan lærir eitthvað á þessum stutta tíma sem hún hefur til þess – því það er gjarnan í eðli góðrar sögu. Lítið vissi ég í fyrstu, en svo fór ég þangað og svo þangað og áður en ég vissi var ég kominn að sögulokum og nú veit ég meir.
„Það er ekki sniðugt að vera alltaf reykjandi og drekkandi og haldandi framhjá. Það kemur aftan að þér um síðir“
En það er samt ekki endilega eðli þroskans. Þroska eiga menn að taka út hægt og rólega. Og þess vegna er dramaserían best til þess fallin að fara með okkur í ferðalög sem leiða til þroska sem endist. Bæði fyrir persónuna og áhorfendur. Hvað lærðum við til dæmis ekki sem horfðum á Mad Men frá upphafi til enda? Þú flýrð ekki lífið þó þú sért sérdeilis klár að búa til auglýsingar. Það er ekki sniðugt að vera alltaf reykjandi og drekkandi og haldandi framhjá. Það kemur aftan að þér um síðir. Var ekki hægt að koma þeim boðskap á framfæri á 90 mínútum? Jú, jú – en betra er að fá að dvelja í því í nokkur ár – lifa með Don Draper og láta hann síast inn. Þá hverfur hann aldrei úr minni þínu.
Og þessu tengt. Ég var að vafra á Netflix um daginn og rakst á áðurnefndar myndir um „Guðföðurinn“, sem ég hafði séð nokkuð oft áður. Og á meðan ég var að drekka í mig Guðföður númer tvö þá gerði ég þá merkilegu uppgötvun að þessar myndir bjóða okkur upp á hina fullkomnu hringrás í lotuáhorfi. Eftir að hafa séð Godfather 2 færðu þörf fyrir að sjá Godfather 1 og eftir að þú hefur séð hana finnst þér þú verða að sjá númer tvö aftur. Þetta getur gengið nokkrum sinnum. Og þá kannski – mögulega – langar þig að kíkja á númer þrjú.
Athugasemdir