H
annes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og höfundur skýrslu um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur afhent fulltrúa bresku ríkisstjórnarinnar, brigslar íslenskum tölvunarfræðingi, Kristleifi Daðasyni, um tengsl við kínversk stjórnvöld í umræðum á Facebook.
Kristleifur Daðason birtir eftirfarandi skjáskot af samskiptum sínum við Hannes síðu sinni. Umræðurnar áttu sér stað við færslu frá Jæja-hópnum þar sem bent er á að ef framin hafi verið lögbrot við lánveitingu Seðlabankans til Kaupþings þann 6. október 2008 fyrnist brotin á morgun.
Ummæli Hannesar vöktu kátínu hjá Kristleifi sem kannast ekki við nokkur tengsl við kínversk stjórnvöld og finnst málið hið hlægilegasta.
„Ég geri ráð fyrir því að hann álykti að ég sé tengdur einræðisstjórn Kína af því að það stendur að ég vinni hjá einhverju sem heitir „WuXi“, segir Kristleifur en um er að ræða WuXi Nextcode Genomics sem er íslenskt hátæknifyrirtæki. „Að hann beri manni þær sakir að búa erlendis og vera á mála alræðisstjórna þegar maður er með mynd af heimili sínu í bankahúsunum á Framnesvegi í prófílmynd, sem gerist tæpast íslenskara... kaldhæðnin er safarík.“
Athugasemdir